Menning

Gerir kommentakerfin í Firefox og Safari líka ljóðræn

Tinni Sveinsson skrifar
Birkir semur ljóð fyrir fólk sem lifir og hrærist á netinu.
Birkir semur ljóð fyrir fólk sem lifir og hrærist á netinu.
Nú eru liðnar um þrjár vikur síðan ljóðabók Birkis Blæs Guðmundssonar, Vísur, fór í loftið hér á Vísi.

Bókin virkar þannig að lesendur sækja vafraviðbót og birtist bókin þá í stað kommentakerfisins á Lífinu á Vísi. Bókin telur um tuttugu ljóð og þegar þau hafa öll birst hverfur bókin og hefðbundið kommentakerfi birtist á ný.

Fyrst um sinn var bókin aðgengileg í Google Chrome-vafra en nú hafa viðbótætur við Mozilla Firefox og Safari-vafra einnig bæst við.

Strax í útgáfuviku Vísna sóttu nokkur hundruð manns bókina, sem er gefin út í samstarfi við ljóðaútgáfuna Meðgönguljóð.

Bókinni hefur verið afar vel tekið. Í gagnrýni á menningarvefnum Starafugl segir meðal annars:

„En er eitthvað varið í verkið? Því er fljótsvarað: Já, það er margt spunnið í þetta verk. Fyrir það fyrsta er hugmyndin góðra gjalda verð; að setja texta sem ætti allajafna ekki að renna yfir á hundavaði í viðlíka hraðsuðuketil og www.visir.is er sem og að ganga enn lengra með hugmyndina um ljóð fyrir alla eða að ljóð eigi að vera öllum aðgengileg, líka þeim sem ef til vill eru vanalega ekki áhugasamir um ljóðalestur. Verkið, innihaldslega og formlega séð, rímar líka ágætlega við miðilinn þar sem það birtist og er vel þess virði að glugga í. En þá er bara að gefa sér tíma í það. Og mikilvægasta spurningin í því samhengi er hvort fólk, eða lesendur síðunnar, séu reiðubúnir til þess atarna.“

Ljóðabók af þessu tagi er líklega hin fyrsta sinnar tegundar í heiminum en Birkir er búinn að ganga með þessa hugmynd í kollinum í einhvern tíma. „Á Íslandi koma út fjölmargar ljóðabækur á hverju ári, en ég er ekki viss um að margir gefi sér tíma til að lesa þau,“ segir Birkir.

„Kannski er það vegna þess að enginn hefur áhuga á ljóðum lengur. En kannski er það vegna þess að enginn nennir að gera sér ferð út í bókabúð. Fólk lifir og hrærist inni á internetinu og þetta er tilraun til að sjanghæja ljóðum inn í þann veruleika.“

Við hvetjum fólk til að taka þátt í þessarri skemmtilegu tilraun.

Hægt er að ná í ljóðabókina með því að fylgja hlekkjunum hér fyrir neðan.

Viðbót fyrir Mozilla Firefox vafra.

Viðbót fyrir Safari vafra.

Viðbót fyrir Google Chrome vafra.


Tengdar fréttir

Skiptir út kommentakerfinu fyrir ljóð

Birkir Blær Ingólfsson gefur út ljóðabók í dag sem eingöngu er hægt að nálgast á fréttavef Vísis þar sem lesendur geta skipt athugasemdakerfinu út fyrir ljóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×