Fótbolti

Óli Jóh sagður vera á leið á Hlíðarenda

Valsmenn eru ekki spenntir fyrir Þorvaldi en vilja ólmir fá Óla Jóh sem þjálfara. Þeir félagar eru hér á hliðarlínunni í Laugardalnum.
Valsmenn eru ekki spenntir fyrir Þorvaldi en vilja ólmir fá Óla Jóh sem þjálfara. Þeir félagar eru hér á hliðarlínunni í Laugardalnum. vísir/vilhelm
Enn ein þjálfaraskiptin virðast vera fram undan hjá karlaliði Vals í knattspyrnu.

Magnús Gylfason er mjög valtur í sessi á Hlíðarenda og herma heimildir íþróttadeildar að Magnús verði ekki þjálfari Vals næsta sumar.

Þorvaldur Örlygsson hefur verið þráfaldlega orðaður við starfið síðustu misseri en sömu heimildir herma að ekki sé áhugi á því innan stjórnar Vals að ráða Þorvald.

Valsmenn hafa aftur á móti mikinn áhuga á því að ráða Ólaf Jóhannesson, fyrrum landsliðsþjálfara og þjálfara FH. Heimildir íþróttadeildar herma að Valsmenn vilji fá Ólaf og með honum á hliðarlínunni á að vera Valsgoðsögnin Sigurbjörn Hreiðarsson.

Sigurbjörn var aðstoðarmaður Ólafs hjá Haukum en tók við sem aðalþjálfari fyrir núverandi tímabil. Sigurbirni er síðan ætlað að taka við af Ólafi með tíð og tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×