Innlent

2,2 milljarðar manna lifa undir fátæktarmörkum

vísir/afp
Rúmir tveir milljarðar manna lifa undir eða nálægt fátækarmörkum samkvæmt Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna. Lífskjör hafa þó farið batnandi nær allstaðar í heiminum undanfarin ár.

Skýrslan var rædd á morgunverðarfundi Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar HÍ í morgun.

Í skýrslunni er vakin athygli á því að mannkynið standi frammi fyrir auknum náttúruhamförum og ógnum af mannavöldum sem samfélög eru misjafnlega vel í stakk búin til að takast á við.

„Þarna er kynnt til sögunnar ný mælistærð um þróun hjá mannkyninu og þarna er vanmáttur eða möguleikar samfélaga eða þjóða til að vinna á erfiðleikum t.d. farsóttum og náttúruhamförum. Þar stöndum við Íslendingar mjög framarlega. Það eru hins vegar ekki allar þjóðir sem að geta brugðist jafn vel við erfiðleikum sem steðja að og þetta skiptir máli varðandi þróun, núna og í framtíðinni,“ segir Þröstur Freyr Gylfason, Formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Í skýrslunni kemur fram að 2,2 milljarðar manna lifa undir eða nálægt fátæktarmörkum. Þröstur  segir að þrátt fyrir þetta hafi náðst mikill árangur í baráttunni gegn fátækt á undanförnum árum.

„Okkur hefur orðið heilmikið ágengt og það er kannski fyrst og fremst vegna þess að menn hafa samstillt krafta sína. Þvert á bæði stofnanir Sameinuðu þjóðanna og milli ríkja. Þannig að kröftunum er beint í tiltekinn farveg til þess að fást við þessi viðfangsefni," segir Þröstur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×