Viðskipti innlent

Isavia hagnast um 836 milljónir króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir fjármagn vanta til reksturs innanlandsflugvalla.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir fjármagn vanta til reksturs innanlandsflugvalla.
Afkoma ríkisfyrirtækisins Isavia á fyrri helmingi ársins var jákvæð um 836 milljónir króna samanborið við 1.367 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur samstæðunnar, sem samanstendur af Isavia og dótturfélögunum Fríhöfninni og Tern Systems, jukust um 11,3 prósent milli ára og námu 9.929 milljónum.

Í uppgjörstilkynningu fyrirtækisins segir að tekjuaukninguna megi að stórum hluta rekja til fjölgunar farþega á Keflavíkurflugvelli. Góð afkoma á fyrstu sex mánuðum ársins styðji jafnframt við áætlanir Isavia um uppbyggingu á vellinum. Fjárfestingar á fyrstu sex mánuðum ársins hafi numið 1,7 milljörðum króna en áætlanir geri ráð fyrir að þær geti samtals numið allt að fimm milljörðum á árinu.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir í tilkynningunni að fyrirtækið hafi áhyggjur af innalandskerfinu.

„Lögum samkvæmt megum við ekki nýta auknar tekjur af alþjóðafluginu til innanlandsflugvalla en á undanförnum sjö árum hafa framlög til innanlandskerfisins á fjárlögum verið skorin niður um 850 milljónir króna að raunvirði. Ef til áframhaldandi niðurskurðar kemur í fjárlögum næsta árs verður eitthvað undan að láta,“ segir Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×