Innlent

Ábyrgðarmenn rukkaðir fram yfir gröf og dauða

Heimir Már Pétursson skrifar
Hætt var að krefjast ábyrgðarmanna á námslán árið 2009 en ábyrgðarmenn eldri lána geta verið eltir til greiðslu allt að dánarbúum þeirra. Frumvarp fyrrverandi menntamálaráðherra til breytinga féll á tíma.
Hætt var að krefjast ábyrgðarmanna á námslán árið 2009 en ábyrgðarmenn eldri lána geta verið eltir til greiðslu allt að dánarbúum þeirra. Frumvarp fyrrverandi menntamálaráðherra til breytinga féll á tíma.
Ábyrgð ábyrgðarmanna á námslánum fylgir þeim fram yfir gröf og dauða. Dæmi eru um að gengið sé að ábyrgðarmönnum ártugum eftir að þeir skrifuðu undir skuldabréf hjá Lánasjóðnum. Námslán sem tekin voru eftir 2009 hafa hins vegar enga aðra baktryggingu en lántakandann.

Fréttir hafa verið sagðar af því að undanförnu hvernig fólk sem gekkst í ábyrgð fyrir námslánum ástvina eða ættingja fyrir áratugum er að vakna upp við vondan draum þegar Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) gengur að ábyrgðunum. Þannig hefur verið greint frá því að dánarbú ábyrgðarmanns var krafið um greiðslu á námsláni og því má segja að ábyrgðin nái fram yfir gröf og dauða ábyrgðarmannsins.

Þá var greint frá því á MBL í gær að kona sem var 19 ára þegar hún gekkst í ábyrgð á námsláni 33 ára kærasta síns er nú tæplega 30 árum síðar krafin greiðslu 2,7 milljóna vegna þessa láns. En hún hefur ekki verið í sambandi við manninn  í nær þrjá áratugi. Hún fullyrðir að LÍN hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni við hana og er málið á leið fyrir dómstóla.

Í menntamálaráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur var ákveðið árið 2009 með lögum að hætta að krefjast ábyrgðarmanna vegna námslána, enda eru námslán fyrst og fremst til fjárfestingar í menntun hvers og eins sem aldrei getur nýst nokkrum öðrum sem eign sem hægt er að ganga að.

„Já mikið rétt. Þetta var nú tekið til skoðunar á sínum tíma. Ég lagði fram þessa breytingu sem varð að lögum árið 2009 og þá var það metið að það væru ýmis lögfræðileg álitamál sem fylgdu því að afnema ábyrgðirnar aftur í tímann. Þannig að það var tekið það skref að fella niður ábyrgðarmannakerfið frá og með árinu 2009,“ segir Katrín.

Síðan hafi verið ráðist í heildarendurskoðun á lögum um lánasjóðinn.

„Og meðal þeirra breytinga sem lögð var til í þeirri heildarendurskoðun, sem því miður náði ekki fram að ganga, var að ábyrgðir myndu falla niður á eldri lánum þegar ábyrgðarmaður næði 67 ára aldri,“ segir menntamálaráðherrann fyrrverandi.

Þetta frumvarp náði hins vegar ekki afgreiðslu á síðustu dögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Námslán geta skipt milljónum og jafnvel tugum milljóna og því getur ábyrgð sem veitt var fyrir mörgum árum og jafnvel áratugum á láni einhvers sem fólk hefur löngu slitið sambandi við, sett fjárhag ábyrgðarmannsins í fulllkomið uppnám og nær jafnvel til dánarbús ábyrgðarmanns.

„Einmitt og það hefði þá breyst ef þetta hefði verið samþykkt á sínum tíma. Fyrir utan að það er auðvitað mjög mikilvægt að stjórn lánasjóðsins fái síðan einhverja heimild til að taka á einstökum málum. Þessi heildarendurskoðun lá fyrir á sínum tíma og það er auðvitað hægur vandi fyrir núverandi stjórnarmeirihluta að taka þessi mál upp og taka þau aftur til skoðunar því það er búið að vinna mikla vinnu í þessu,“ segir Katrín Jakobsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×