Innlent

„Höldum í vonina þar til annað er sýnt og sannað“

Samúel Karl Ólason skrifar
Síðast sást til Christian Mathias Markus síðan á fimmtudaginn.
Síðast sást til Christian Mathias Markus síðan á fimmtudaginn.
Ákveðið var að gera hlé á leit að Christian Mathias Markus, ferðamanni frá Þýskalandi, í gær en leitin mun hefjast aftur í síðasta lagi í fyrramálið. Ekkert hefur spurst til hans síðan á fimmtudag, en bíll hans fannst yfirgefinn við Látrabjarg í fyrradag.

„Eins og staðan er núna er ekki verið að leita vegna veðurs og slæmra aðstæðna. Staðan verður endurmetin þegar að veðrið skánar, en í síðasta lagi í fyrramálið,“ sagði Ingvar Jakobsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Vestfjörðum í samtali við Vísi í dag.

Fjölskylda Christian í Þýskalandi fór að óttast um hann og hafði samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóra á laugardaginn, eftir að hafa ekki heyrt í honum um nokkuð skeið.

Síðast sást til Christian á fimmtudaginn þegar hann yfirgaf hótel í Breiðuvík á bílaleigubíl sínum. Bíllinn fannst á bílastæðinu við Látrabjarg á þriðjudaginn. Hann var einn á ferð.

Lögreglan, björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar hafa tekið þátt í leitinni á og við Látrabjarg.

Í gær gekk leitin illa vegna veðurs og var því ákveðið að fresta henni. Ingvar segir að leitarmenn muni halda í vonina um að finna Christian sem fyrst.

„Við höldum í vonina alveg þar til annað sýnt og sannað.“


Tengdar fréttir

Leit að hefjast á ný að þýska ferðamanninum

Leit hefst aftur í birtingu að þrítugum þýskum ferðamanni á Látrabjargi á Vestfjörðum og þar í kring, en síðast sást til hans á fimmtudag, þegar hann fór frá Hótelinu í Breiðuvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×