Menning

Mótettukórinn býður til veislu í tilefni gullverðlauna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óhætt er að segja að ferð Mótettukórsins til Spánar hafi verið til fjár.
Óhætt er að segja að ferð Mótettukórsins til Spánar hafi verið til fjár.
Mótettukór Hallgrímskirkju vann til þrennra gullverðlauna og Grand prix verðlauna Spáni í síðustu viku eins og Vísir greindi frá. Kórinn tók þátt í alþjóðlegu kórakeppninni Cancó Mediterrania, sem haldin er í september á hverju ári í Lloret de Mar hjá Barcelona á Spáni. Í tilefni góðs árangurs ætlar kórinn að bjóða til ókeypis tónleika í Hallgrímskirkju á sunnudaginn klukkan 17 á meðan húsrúm leyfir.

Tuttugu og tveir kórar með um átta hundruð kórsöngvurum voru skráðir til keppni á Spáni en keppt var í þremur aldursflokkum og fimm efnisflokkum. Mótettukórinn keppti í flokkunum „trúarleg tónlist“ og „þjóðleg tónlist”, auk þess sem kórinn keppti um besta flutninginn á tónverki eftir Pablo Casals, en keppnin er kennd við þennan heimsfræga sellista og þjóðhetju í Katalóníu.

Mótettukórinn söng keppnisdagskrána í höfuðkirkju Lloret de Mar miðvikudaginn 17. september að viðstöddum áheyrendum og fimm manna dómnefnd. Auk þess söng kórinn á tónleikum í Dómkirkjunni í Barcelona, Tibidabo Sacrat Cor kirkjunni í Barcelona og Santa Susanna kirkjunni í Girona. Á öllum tónleikunum hlaut kórinn frábærar undirtektir áheyrenda að því er segir í tilkynningu frá kórnum.

Laugardaginn 20. september voru úrslit keppninnar tilkynnt á útisviði við ráðhús Lloret de Mar. Þar kom í ljós að Mótettukórinn hafði orðið hlutskarpastur í öllum þremur flokkunum sem hann keppti í. Hörður Áskelsson, stjórnandi kórsins, tók við þrennum gullverðlaunum og að auki sérstökum Grand prix heiðursverðlaunum fyrir besta kór keppninnar. Í ljós kom að kórinn hafði fengið nánast fullt hús stiga allra dómnefndarmanna. Að lokinni verðlaunaafhendingu brutust út mikil fagnaðarlæti meðal viðstaddra.

Sunnudaginn 28. september býður Mótettukórinn löndum sínum að fagna með sér í Hallgrímskirkju. Kórinn flytur þar efnisskrá sína í Spánarferðinni, þar með talin öll verkin sem sungin voru í keppninni. Tónleikarnir hefjast klukkan 17.00 og er ókeypis aðgangur meðan húsrúm leyfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×