Viðskipti innlent

MS sektað um 370 milljónir króna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
MS ætlar að áfrýja niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.
MS ætlar að áfrýja niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Vísir/Pjetur
Samkeppniseftirlitið hefur sektað Mjólkursamsöluna (MS) um 370 milljónir fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Fram kemur í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu að MS hafi beitt smærri keppinauta mismunun með því að selja þeim hrámjólk á 17% hærra verði en fyrirtæki sem tengd eru MS greiddu. Telur Samkeppniseftirlitið að þetta hafi haft hamlandi áhrif á samkeppni á markaði.

„Verðmunurinn var til þess fallinn að veikja Mjólkurbúið Kú, sem er lítil mjólkurafurðastöð í einkaeigu, og stuðla að sölu á fyrirtækinu Mjólku til Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á árinu 2009,“ segir í tilkynningu.

Brotin áttu sér stað í nokkuð langan tíma, eða að minnsta kosti frá árinu 2009 til ársloka 2013. Samkeppniseftirlitið telur brotið alvarlegt þar sem það tengist mikilvægum neysluvörum en þegar sekt MS var ákveðin var einnig horft til þess að um ítrekuð brot var að ræða.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá MS að niðurstaðan komi fyrirtækinu mjög á óvart og hyggst það vísa málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×