Innlent

Framsókn endurgreiðir sjávarútvegsfyrirtækjum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Framsóknarflokksins. Vísir / GVA
Framsóknarflokkurinn þarf að endurgreiða tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum hluta af styrkjum sem þau veittu flokknum. Fyrirtækin styrktu Framsóknarflokkinn um meira en lögbundið hámark. Þetta kemur fram í fjárhagsupplýsingum flokksins sem birt eru á vef Ríkisendurskoðunar.

Skinney Þinganes greiddi 440 þúsund krónur til flokksins og fær 40 þúsund krónur til baka. Einhamar Seafood styrkti Framsókn um 462.750 krónur og fær því 62.750 til baka. Lögbundið hámark er 400 þúsund krónur.

Framsóknarflokkurinn hefur staðfest við Ríkisendurskoðun að haft hafi verið samband við fyrirtækin tvö og að þeim verði endurgreiddur munurinn.

Í gögnunum kemur einnig fram að flokkurinn hafi verið rekinn með 19 milljóna króna tapi. Hann fékk 20 milljónir í styrki frá fyrirtækjum og 8 milljónir frá einstaklingum. Mest fékk flokkurinn hinsvegar frá ríkinu, eða 55 milljónir króna.

Rekstur flokksins kostaði 120 milljónir árið 2013. Skuldir Framsóknar nema samtals 243 milljónum króna og er eigið fé hans neikvætt um 71 milljón. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×