Innlent

Áfengisfrumvarpið tekið fyrir: „Áfengisstefnan er ennþá sú sama“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vilhjálmur segir frjálsa áfengissölu ekki vera lýðheilsumál.
Vilhjálmur segir frjálsa áfengissölu ekki vera lýðheilsumál. Vísir/Anton
Byggðasjónarmið ráða því að Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leggur til að sala á sterku áfengi verði einnig gefin frjáls en ekki bara bjór og léttvín. „Ef að vínbúðir væru aðeins að selja sterkt áfengi væri ekki rekstrargrundvöllur fyrir þeim á ákveðnum stöðum,“ útskýrði hann á Alþingi í kvöld, þar sem frumvarp hans um frjálsa sölu á áfengi er til umræðu.

Sama stefna áfram

Þegar er kominn langur listi þingmanna sem ætla að taka þátt í umræðunum. Skiptar skoðanir eru á málinu, líkt og áður, en Vilhjálmur segir í raun enga breytingu verða á stefnu stjórnvalda í áfengismálum verði frumvarpið samþykkt.

„Áfengisstefnan er ennþá sú sama en frumvarpið gerir ráð fyrir auknum fjármunum til að framfylgja þeirri stefnu,“ sagði Vilhjálmur sem benti á að ekki er gerð breyting á aldurstakmörkunum vegna sölu áfengis.

Furða sig á forgangsröðuninni

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, gerði að umtalsefni forgangsröðun Sjálfstæðismanna en málið er fyrsta þingmannafrumvarpið sem tekið er á dagskrá þingsins. 22 önnur frumvörp frá þingmönnum bíða fyrstu umræðu.

„Þó að þetta sé út af fyrir sig mál sem skiptar skoðanir eru um og sjálfsagt að ræða og taka til skoðunar þá tekur maður eftir að þingflokkur Sjálfstæðisflokks skuli gera þetta að einu helsta forgangsmáli sínu,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, um þetta.

Vilhjálmur sagði að þetta væri forgangsmál og sagði lýðræðislegt að málið fengi umræðu á þingi.

Ekki lýðheilsumál

Ekki er samstaða um málið í öllum flokkum og eru þeir sumir klofnir í afstöðu sinni. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fjallaði til að mynda um lýðheilsusjónarmið sem mæli gegn því að leyfa áfengissölu í verslunum. Benti hann á að unglingadrykkja væri með allra minnsta móti hér á landi.

Þá gagnrýndi Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, að frumvarpið ætti ekki að ganga til velferðarnefndar, þar sem lýðheilsustefna stjórnvalda væri mörkuð. Vilhjálmur leggur til að frumvarpið fari til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni fyrstu umræðu.

„Þetta kemur inn á lýðheilsumál en er ekki lýðheilsumál,“ sagði Vilhjálmur sem þó sagðist vilja óska eftir umsögn nefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×