Íslenski boltinn

Grétar: Ekkert heyrt í KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar í eldlínunni með KR í sumar.
Grétar í eldlínunni með KR í sumar. Vísir/Andri Marinó
Grétar Sigfinnur Sigurðarson verður samningslaus eftir tíu daga en hann hefur ekkert heyrt frá forráðamönnum KR um framhaldið.

Þetta sagði hann í samtali við Vísi í dag. „Ég vona svo sannarlega að ég verði áfram í KR en það hefur bara enginn talað við mig um það. Ég veit ekki hverjar líkurnar eru á því að það gerist,“ sagði Grétar.

„Mér finnst það pínu skrýtið að menn hafi ekki haft samband,“ bætti hann enn fremur við.

Óvissa er um framtíð þjálfarans Rúnars Kristinssonar hjá félaginu og herma heimildir Vísis að uppstokkun sé í vændum í leikmannahópi KR-inga fyrir næstu leiktíð.

„Sjálfsagt eru þeir að skoða sín mál og þetta er allt saman í þeirra höndum. En þeir mega heldur ekki missa leikmenn. Ég mun núna skoða þessi mál í rólegheitum í október og við sjáum hvað verður.“

„En ég vil vera áfram í KR. Ég er uppalinn hér og elska þennan klúbb. En það þarf að vera áhugi fyrir hendi og mér finnst að ég hafi staðið mig vel í gegnum árin.“

„Það er allt opið og ég tel að ég eigi mikið inni - bæði í árum og í getu.“

KR endaði tímabilið í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar en varð bikarmeistari. „Við viljum auðvitað vinna titilinn á hverju ári. Við fengum þannig uppeldi. Ég er því þokkalega ánægður með sumarið - ég skoraði mikið og við fengum ekki mikið af mörkum á okkur.“

Grétar Sigfinnur er 32 ára gamall og hefur leikið með KR, Víkingi, Val og Sindra á fjórtán ára ferli í meistaraflokki. Hann á rúmlega 300 leiki að baki í deild og bikar og hefur skorað í þeim 35 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×