Íslenski boltinn

Jeppe: Ég vil líka fá gullmedalíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Ernir
Jeppe Hansen er staddur hér á landi til að fylgjast með sínu gömlu félögum í Stjörnunni leika gegn FH í lokaumferð Pepsi-deildar karla á morgun.

Jeppe kom til Stjörnunnar í upphafi tímabilsins og setti sterkan svip á deildina. Hann skoraði sex mörk í níu leikjum áður en hann gerði tveggja ára samning við Fredericia í júlí.

Nú er hann kominn aftur en hann fékk leyfi til að skella sér hingað til lands til að horfa á leikinn mikilvæga - og heimsækja kærustu sína en hún heitir Anna María Baldursdóttir og leikur með Stjörnunni.

„Það var gott að geta sameinað þetta tvennt,“ sagði hann en Jeppe gat reyndar lítið tekið þátt í æfingunni í dag þar sem hann á við meiðsli að stríða.

Hann neitar því ekki að honum hafi fundist leitt að fara frá Íslandi þegar að því kom. Tímabilið hefur verið ævintýri líkast í Garðabænum en auk titilbaráttunnar náði liðið frábærum árangri í forkeppni Evrópudeildar UEFA þar sem Stjörnumenn féllu að lokum út eftir tap gegn stórliði Inter frá Ítalíu.

„Ég stóð mig vel í síðustu leikjunum og mér var farið að líka afar vel við að búa á Íslandi. Ég var þó ánægður með að fá samning heima og fannst fínt að komast heim. En um leið fannst mér leitt að fara frá Íslandi.“

Jeppe í leik með Stjörnunni í sumar.Vísir/Valli
Hann viðurkennir að honum hafi stundum þótt erfitt að fylgjast með afrekum Stjörnunnar úr fjarlægð. „Ég varð örlítið öfundsjúkur. Það voru nokkrir stórir leikir sem ég hefði viljað taka þátt í. En leikurinn er sá morgun sem ég hefði helst ekki viljað missa af. Það er auðvitað risastórt að spila gegn Inter en strákarnir fá nú tækifæri til að vinna titilinn og komast í sögubækurnar.“

Jeppe hefur fylgst afar vel með leikjum Stjörnunnar og séð upptökur af þeim flestum í tölvunni heima í stofu. „Ég hef líka séð nokkra leiki með FH-ingum og þeir eru með sterkt lið. Maður hefur það alltaf á tilfinningunni að þeir munu vinna sína leiki.“

„En það er aldrei að vita. Ég vonast auðvitað eftir sigri minna manna. Ég giska á 2-1 sigur.“

Hansen ætlar að fylgjast með úr stúkunni en mun svo fagna með félögunum sínum niðri á velli ef Stjarnan verður meistari. „Ég verð á vellinum þegar við fáum gullmedalíuna. Ég vil að sjálfsögðu líka fá medalíu,“ sagði hann og hló.


Tengdar fréttir

Jeppe Hansen samdi við Fredericia

Jeppe Hansen mun yfirgefa herbúðir Stjörnunnar þegar samningur hans við Stjörnuna rennur út um mánaðamótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×