Innlent

Segir alvarlegt ef upplýsingum hafi verið lekið

Höskuldur Kári Schram skrifar

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir alvarlegt ef í ljós kemur að upplýsingum varðandi meint samráð Eimskips og Samskipa hafi verið leikið til óviðkomandi aðila. Eftirlitið hefur óskað eftir því að ríkissaksóknari rannsaki málið.



Kastljóss Ríkissjónvarpsins fjallaði um ákæruna í vikunni og greindi frá því að Samkeppnisseftirlitið hafi kært 11 starfsmenn skipafélaganna til sérstaks saksóknara vegna meints samráðs.



Eimskipafélagið gagnrýnir að upplýsingum úr ákærunni hafi verið lekið í fjölmiðla og hefur kært málið til lögreglunnar. Bæði félögin hafa hafnað öllum ásökunum um brot á samkeppnislögum.



Í gær ákvað svo Samkeppniseftirlitið að óska eftir því að ríkissaksóknari hefji opinbera rannsókn á lekanum.



Hvers vegna hafið þið ákveðið að óska eftir því að ríkissaksóknari rannsaki máli?



„Það er eðlilegur farvegur fyrir svona mál til að ganga úr skugga um hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis,“ segir Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins



Er svona leki alvarlegur að ykkar mati?



„Það er alvarlegt ef upplýsingum af þessu tagi er komið til óviðkomandi aðila,“ segir Páll.



Hafið þið sjálfir rannsakað málið innanhúss hjá ykkur?



„Við erum auðvitað að skoða þetta hjá okkur en það er ekki komin nein niðurstaða í það,“ segir Páll. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×