Innlent

Ekki svigrúm fyrir nýjum spítala að mati Bjarna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bjarni sagði að nýta mætti arð af eignum ríkisins til verkefnisins.
Bjarni sagði að nýta mætti arð af eignum ríkisins til verkefnisins. Vísir / Pjetur
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur engan ágreining vera um nauðsyn þess að byggja upp nýjan spítala. Ekki er þó svigrúm á næstu tveimur til þremur árum, miðað við stöðu ríkisfjármála, að ráðast í framkvæmdir. Þetta sagði hann í umræðum á Alþingi í morgun.

Í umræðunum gagnrýndi Bjarni aðkomu fyrri stjórnvalda að málinu. „Það var aldrei neitt plan til. Þetta voru aldrei neitt annað en stór orð og áætlanir,“ sagði hann og benti á að framkvæmdirnar séu í fimm áföngum og muni kosta upp undir áttatíu milljarða króna.

„Það er ekki svigrúm fyrir það á næstu tveimur til þremur árum miðað við þann afgang sem við horfum fram á að geti myndast í ríkisfjármálunum og þá þarf að finna einhverjar aðrar leiðir,“ sagði Bjarni í umræðunum. Hann sagði að það kæmi til greina að nýta arð af eignum í verkefnið.

Áður hefur Bjarni útilokað að andvirði af sölu eigna verði nýtt til byggingarinnar. „Þær eignir sem ég sé fyrir mér að geti komið til sölu á næstunni er sérstaklega eignir eins og hlutur ríkisins í Landsbankanum en ég tel að andvirði þeirrar sölu eigi fyrst og fremst að ganga til endurgreiðslu á því láni sem tekið var til þess að eignast bankann,“ útskýrði hann í þinginu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×