Fótbolti

Ragnar: Held þeir hafi búist við okkur aðeins betri

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ragnar Sigurðsson var frábær.
Ragnar Sigurðsson var frábær. vísir/villi
„Þetta var glæsilegt. Þetta var það sem við ætluðum okkur og okkur tókst þetta,“ sagði Ragnar Sigurðsson miðvörður Íslands eftir sigurinn glæsilega á Hollandi í kvöld.

„Við spiluðum mun aftar en við ætluðum okkur. Við ætluðum að spila góðan fótbolta eins og við erum búnir að gera og byrja vörnina aðeins ofar. Það gekk bara ekki. Þeir voru góðir að halda boltanum og náðu að ýta okkur aðeins niður en við settum bara tvö mörk og kláruðum þetta.

„Það var léttir að komast yfir en þegar við settum annað markið þá vissi maður að þetta var komið langt.

„Við Kári náum alltaf vel saman og sérstaklega þegar strákarnir fyrir framan vinna svona vel. Þeir gera þetta auðveldara fyrir okkur.

„Mér er skítsama við hvern ég er að spila. Ég var bara að reyna að trufla hann. Við reynum okkar besta og reynum að halda markinu hreinu. Það skiptir engu máli hver er að reyna að skora,“ sagði Ragnar um það að mæta Robin van Persie framherja Hollands.

Með Ragnar og Kára Árnason saman í miðri vörninni hefur Ísland haldið hreinu í fyrstu þremur leikjum undakeppninnar.

„Þetta er búið að vera frábært og maður bjóst kannski ekki alveg við því. Þó það sé alltaf markmiðið. Þetta gerist ekki betra. Við höfum örugglega aldrei verið betri en einmitt núna. Nú verðum við að halda okkur á jörðinni og koma sterkir inn í næsta leik.

„Ég held að þeir hafi búist við okkur aðeins betri en í kvöld. Við spiluðum eiginlega bara vörn. Ég held þeir hafi búist við okkur með eins meiri sóknarleik,“ sagði Ragnar um það hvort hann teldi Ísland hafa komið Hollandi á óvart í leiknum.

„Við vissum að það væri meiri líkur á að þeir væru meira með boltann en við. Maður þekkir alla þessa gaura. Hefur horft oft á þá í sjónvarpinu, það var ekkert sem kom á óvart.

„Ég er búinn að vera að spila mjög vel með mínu félagsliði og með landsliðinu. Maður getur ekkert kvartað. Maður reynir bara að halda sér á jörðinni. Það er ekki sjálfgefið að hlutirnir gangi svona vel og maður sé heill. Maður er bara glaður með það,“ sagði Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×