Fótbolti

Rúrik: Erum ekki eins og gamla Ísland

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúrik á fundinum í dag.
Rúrik á fundinum í dag. Vísir/Vilhelm
Rúrik Gíslason, vængmaður íslenska landsliðsins, segir að íslenska landsliðið í dag spili ekki eins fótbolta og „gamla" Ísland.

„Ég var ánægður með mína innkomu gegn Lettum. Við stýrðum leiknum þegar ég kom inná," sagði Rúrik Gíslason við blaðamann Vísis í dag.

„Ég reyndi að fara eftir fyrirmælum frá þjálfaranum. Þau voru að halda boltanum og láta þá elta og sigla þessu heim."

Hann segir að byrjunin á undankeppninni komi sér ekkert á óvart.

„Í rauninni ekki. Fyrsti leikurinn gegn Tyrkjum var 50-50 leikur þar sem á pappírunum töldum við okkur svipað sterka og hann gat farið í báðar áttir. Mjög góð úrslit í þeim leik og við spiluðum frábærlega."

„Leikurinn í Lettlandi var kannski ekki skyldusigur, en það bjuggust flestir við að við myndum vinna, þar á meðal við. Þessi byrjun kemur því okkur ekkert sérstaklega á óvart."

„Við höfum sýnt það að við erum með fínt fótboltalið. Við erum ekki eins og „gamla" Ísland; að liggja til baka og svona. Ég vona að þetta þróist ekki eins og Lettar voru gegn okkur, því þá getum við ekkert verið ánægðir með okkar frammistöðu."

„Auðvitað reynum við að beita skyndisóknum, en við verðum að geta haldið boltanum. Við erum á heimavelli gegn frábæru liði, en við erum með það mikið sjálfstraust og fólkið í landinu er með væntingar þannig við þurfum að standa okkur."

Rúrik bætir við að lokum að hann geri tilkall í byrjunarliðið í hvert einasta skipti, en hann treysti þjálfurunum fullkomlega.

„Ég reyni að gera tilkall í byrjunarliðið í hvern einasta leik, en ég treysti þjálfurunum fullkomlega að velja liðið sem þeir telja að henti best í hverju sinni. Ég verð að vera á tánum og vera klár þegar kallið kemur," sagði Kaupmannahafnarbúinn Rúrik að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×