Ingimundur Níels Óskarsson hefur ekki fengið fleiri samningstilboð en frá Fylki og Víkingi eins og Vísir greindi frá í síðustu viku.
Valsmenn hafa einnig áhuga á Ingimundi sem er búinn að ákveða að yfirgefa FH, en hann hittir Ólaf Jóhannesson, nýráðinn þjálfara Vals, að máli í dag.
„Ég var búinn að lofa Óla að hitta hann þannig ég sest niður með Valsmönnum í dag. Annars hef ég ekki fengið fleiri tilboð,“ segir Ingimundur við Vísi.
Aðspurður hvort fleiri lið hafi bæst í hópinn í kapphlaupið um hann segir Ingimundur Níels: „Ég veit að Fjölnir hefur áhuga á mér.“
Ingimundur Níels, sem skoraði skoraði fjögur mörk og lagði upp önnur þrjú í sumar, ætlar að taka sér þessa viku í að fara yfir málin.
„Ég skoða þetta líklega á morgun og tek svo ákvörðun í lok vikunnar,“ segir Ingimundur Níels Óskarsson við Vísi.
