Innlent

Lögreglustjóri segir skýrsluna einsdæmi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fulltrúar lögreglunnar á fundinum í morgun.
Fulltrúar lögreglunnar á fundinum í morgun. Vísir / GVA
Stjórnmálaskoðanir fólks eru ekki almennt skráð í tölvukerfi lögreglunnar nema að það skipti máli fyrir mál sem til meðferðar eru hjá lögreglunni. Þetta segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu. Hún kom í dag fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem hún svaraði spurningum um skýrslu sem unnin var fyrir embættið um mótmæli.

„Almennt er bókað það sem máli skiptir í hverju tilviki; það sem lögreglumenn á vettvangi telja skipta mestu máli. Til dæmis getur það verið ef forsvarsmaður sem fer fyrir mótmælum sem stendur fyrir mótmælum í nafni einhvers ákveðins stjórnmálaafls eða eitthvað slíkt, þá gæti það komið fyrir. En það verður að vera eitthvað „relevant“ við málið,“ segir Sigríður í samtali við Vísi um málið.

Skýrslan hefur verið gagnrýnd fyrir margar sakir og hafa þau sjónarmið komið fram, meðal annars hjá nefndarmönnum, hvort eðlilegt sé yfir höfuð taka saman gögn með þessum hætti. Sigríður sagði á fundinum að skýrslan væri einsdæmi og að slík samantekt yrði ekki gerð aftur. Hún er þó ekki tilbúinn að segja að það hafi verið mistök að taka skýrsluna saman.

„Það er ekki mitt að meta það hvort það hafi verið mistök eða ekki. Þetta var ákvörðun sem var tekin á þeim tíma út frá þeim forsendum sem þá lágu fyrir. Það er ekki mitt að endurmeta það. Hinsvegar höfum við sagt að það séu ákveðin atriði sem hefðu mátt vera öðruvísi í skýrslunni, eða samantekinni,“ segir hún aðspurð hvort það hafi verið mistök að gera skýrsluna.

Undir þetta sjónarmið tók Jón H.B. Snorrason, saksóknari hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á fundinum. Hann sagði það meira en gagnrýnivert hvernig skýrslan var unnin og sett fram.

Persónuvernd hefur meðferð lögreglunnar á gögnum sem fram koma í skýrslunni til skoðunar. Á fundinum sagði Sigríður lögreglustjóri ekki vita til þess að sérstakrar heimildar hafi verið leitað hjá stofnuninni áður en skýrslan var unnin.

Málið verður einnig áfram til skoðunar hjá þingnefndinni sem óskaði eftir skriflegri greinargerð þeirra lögreglumanna sem mættu fyrir nefndina í morgun. „Við munum ekki sleppa hendinni af þessu máli,“ sagði Ögmundur Jónasson, formaður nefndarinnar, á fundinum.


Tengdar fréttir

Kærir lögregluna fyrir njósnir

Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi formaður Hægri grænna, telur að freklega sé brotið á friðhelgi einkalífs hans í nýopinberaðri skýrslu lögreglunnar um mótmæli almennings á hrunárunum. Guðmundur lagði í gær fram kæru til ríkissaksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×