Erlent

Fyrstu niðurstöður frá Philae birtar í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Philae skoppaði í allt að kílómeters hæð.
Philae skoppaði í allt að kílómeters hæð. Mynd/ESA
Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) mun gefa út fyrstu niðurstöður úr fyrstu skoðun gagna sem Philae sendi til jarðarinnar áður en farið varð rafmagnslaust, í dag. Vísindamenn ESA munu koma saman og skoða niðurstöðurnar áður en þær verða birtar.

Philae, lenti á halastjörnunni 67P, um fimm hundruð milljón kílómetra frá jörðu, á miðvikudaginn. Ekki er vitað með vissu hvar farið lenti, en það situr við klett sem veldur því að sólarrafhlöður farsins fá ekki nægjanlega birtu. Farið varð rafmagnslaust á föstudaginn.

Áður en það gerðist voru þó framkvæmdar nokkrar tilraunir samkvæmt AP fréttaveitunni. Þar á meðal var borað undir yfirbort halastjörnunnar og sýni tekið úr jarðveginum. Efni undir yfirborði halastjörnunnar hafa ekki breyst í fjóran og hálfan milljarð ára.

Vísindamenn vonast til þess að niðurstöður rannsókna geti varpað ljósi á hvort halastjörnur hafi mögulega flutt vatn og lífræn efni til jarðarinnar.

Áður en Philae varð rafmagnslaust stilltu vísindamenn því upp svo það gæti mögulega fengið nægjanlega hleðslu og kveikt á sér aftur.

ESA birti fyrir helgi myndir sem teknar voru úr Rosettu, móðurfari Philae, sem sýna lendingu farsins á 67P. Philae skoppaði í allt að kílómeters hæð áður en það lenti aftur, þar sem búnaður sem átti að festa farið við halastjörnuna virkaði ekki.

Eftir fyrstu snertingu liðu tveir klukkutímar þar til farið stöðvaðist. Lítið þyngdarafl er á halastjörnunni og hefði farið getað skoppað aftur út í geim. Nú er búið að greina myndirnar, en þar sem skopp Philae sést.




Tengdar fréttir

Reyna að lenda á halastjörnunni

Evrópska geimvísindastofnunin mun í dag gera tilraun til að koma könnunarfarinu Philae á yfirborð halastjörnu sem þýtur í gegnum geiminn á ofsahraða. Gervitunglið Rósetta hefur síðustu vikur fylgt halastjörnunni eftir og í dag á að reyna að lenda litlu könnunarfari úr tuttugu kílómetra hæð á yfirborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×