Menning

Guðný Kristjánsdóttir fékk Súluna í Reykjanesbæ

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Guðný Kristjánsdóttir handhafi menningarverðlaunanna, Eva Björk Sveinsdóttir formaður menningarráðs Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Guðný Kristjánsdóttir handhafi menningarverðlaunanna, Eva Björk Sveinsdóttir formaður menningarráðs Reykjanesbæjar. vísir/aðsend
Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2014, fór fram við hátíðlega athöfn í Bíósal Duushúsa í gærkvöldi.

Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa unnið vel að menningu og listum og var þetta í átjánda sinn sem Súlan var afhent. Að þessu sinni hlaut verðlaunin Guðný Kristjánsdóttir fyrir framlag sitt til menningar og lista. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ.

Verðlaunagripurinn er hannaður og smíðaður af keflavísku listakonunni Elísabetu Ásberg. Handhafa fyrri ára má sjá á vef Reykjanesbæjar. Formaður menningarráðs Eva Björk Sveinsdóttir afhenti verðlaunin fyrir hönd bæjarstjórnar.

Við sama tækifæri var styrktar-, stuðningsaðilum og þátttakendum Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar, þakkaður stuðningurinn en þeir voru 87 talsins í ár.

Guðný Kristjánsdóttir er fædd í Keflavík þann 7. mars 1967. Hún steig fyrst á svið með Leikfélagi Keflavíkur 14 ára gömul árið 1981 í hlutverki hérakrílis í Rauðhettu og úlfinum. Um tvítugt kom Guðný af fullri alvöru inn í starf leikfélagsins með þátttöku í verkinu Skemmtiferð á vígvöllinn í leikstjórn Huldu Ólafsdóttur, sem Guðný segir eiga stóran þátt í því að hún hóf að leika. Um þetta leyti voru hjól Leikfélagsins farin að snúast á nýjan leik eftir að hafa legið í dvala um nokkurt skeið. Síðan hefur ekkert stöðvað framgang leikfélagsins og hefur Guðný staðið þar í stafni.

Á ferli sínum hefur Guðný tekið þátt í uppsetningu á 31 leikverki hjá leikfélaginu, auk þess að taka þátt í fjölmörgum leikverkefnum við hin ýmsu tilefni svo sem þrettándagleði, Ljósanótt, 17. júní o.fl. Þá hefur hún Leikstýrt tveimur verkum fyrir leikfélagið ásamt öðrum. 

Vorið 1989 kom Guðný inn í stjórn leikfélagsins og árið 1993 var hún gerð að formanni. Allar götur síðan, utan eitt ár, hefur Guðný setið í stjórn félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.