Enski boltinn

Falcao reiður á twitter: Þarf ekki að kæla hnéð eftir allar æfingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radamel Falcao.
Radamel Falcao. Vísir/Getty
Radamel Falcao var ekki sáttur með fréttir enskra fjölmiðla í dag sem höfðu heimildir fyrir því að kólumbíski framherjinn þyrfti að kæla hnéð sitt eftir alla æfingar og alla leiki.

Falcao sleit krossbandi í vinstri hnénu á síðasta tímabili og var frá í átta mánuði. Hann missti meðal annars af HM í Brasilíu síðasta sumar.

Radamel Falcao taldi sig tilneyddan til að fara inn á twitter og vísa fyrrnefndum fréttum til föðurhúsanna. Þar segir hann að fáir vitleysingar geti fengið milljónir til að trúa slíkum lygum. „Það er hyllilegt að sjá hvað nokkrir vitleysingar geta áorkað," skrifaði  Radamel Falcao.

Það eru ekki hnémeiðslin sem koma í veg fyrir að Radamel Falcao spili með Manchester United liðinu þessa dagana því hann er einnig að glíma við kálfameiðsli í dag.

Falcao hefur aðeins komið við sögu í einum leik (varamaður) í undanfarinn mánuð eða síðan að hann snéri heim eftir landsleiki með Kólumbíu.

Radamel Falcao fær 190 þúsund pund í vikulaun hjá Manchester United, 37,5 milljónir íslenskra króna, en hefur aðeins spilað 5 leiki í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×