Innlent

Páll Óskar vill kerti út í glugga í mótmælaskyni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá mótmælunum fyrir viku.
Frá mótmælunum fyrir viku. Vísir/Ernir/Páll Óskar
Páll Óskar hefur ráð á reiðum höndum fyrir þá sem ekki komast á mótmælin á Austurvelli í dag. Annan mánudaginn í röð er boðað til mótmæla utan við Alþingi.

Það eru samtökin Jæja sem standa fyrir mótmælunum í dag sem hefjast klukkan 17. Kári Örn Hinriksson, krabbameinssjúklingur og blaðamaður og Sigurveig Margrét Stefánsdóttir læknir flytja ávörp. Snorri Helgason tónlistarmaður stígur á stokk.

Páll Óskar segist í skilaboðum á vefsíðu mótmælanna ekki eiga heimangengt á mótmælin í dag. Hann ætli hins vegar að setja kerti út í glugga.

„Ef þú vilt mótmæla á Austurvelli í dag, en kemst ekki (vegna veikinda, með börn heima, eða bara önnum kafin(n), þá væri mjög fallegt að setja kerti í alla glugga heima hjá sér milli kl. 17 og 19 og sýna þar með veru þína á mótmælunum á táknrænan og friðsælan hátt,“ segir Páll Óskar. Það ætli hann að gera.

Jæja-samtökin hvetja þá sem ætla að setja kerti út í glugga til að taka myndir af þeim og setja samfélagsmiðla á borð við Facebook, Twitter og Instagram. Er stungið upp á merkingunum #austurvöllur #ljósabyltingin eða #jæja.

„Þessi mótmæli eru haldin aftur þar sem það ekkert af því sem fram kom síðast virðist hafa skilað sér. Fólki finnst sem það sé ekki hlustað á sig,“ segir Leifur Eiríksson í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×