Enski boltinn

Wenger: Reyndi að semja við Messi þegar hann var fimmtán ára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur viðurkennt að það sé rétt að félagið hafi reynt að fá Lionel Messi til félagsins á sínum tíma.

Messi var þá fimmtán ára gamall og lék með unglingaliðum Barcelona. Arsenal hafði einnig sýnt þeim Gerard Pique og Cesc Fabregas áhuga en að lokum var það aðeins sá síðastnefndi sem flutti til Lundúna.

Í nýútkominni ævisögu Messi er því haldið fram að Messi hefði haldið kyrru fyrir í Barcelona vegna þess að Arsenal gat ekki séð fjölskyldu hans fyrir húsnæði í Lundúnum. Wenger segir að það sé ekki fyllilega rétt.

„Ég held að hann hafi ekki viljað flytja þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta var á þeim tíma þegar Fabregas kom og þeir léku í sama liði í unglingaakademíu Barcelona. Við vildum fá Fabregas, Messi og Pique en það gekk aðeins eftir með Fabregas.“

„Þetta snerist ekki bara um íbúðina heldur var aðalmálið að honum leið vel hjá Barcelona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×