Stefán Kjærnested var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Landsbankanum 50 milljónir króna. Málið er komið til vegna sjálfskuldarábyrgðar er Stefán tókst á hendur gagnvart Landsbanka Íslands hf. vegna láns bankans til Húsaleigu ehf. að upphæð 80 milljónum króna. Félagið var í eigu Stefáns en það var úrskurðað gjaldþrota í febrúar.
Lánið var svokallað fjölmyntalán til fimm ára og sagði í lánssamningi, sem undirritaður var 30. ágúst 2007 að lánið væri veitt í eftirgreindum myntum og hlutföllum: CHF 70% og JPY 30%. Lánið átti að greiðast með 60 mánaðarlegum afborgunum með lokagjalddaga 10. september 2012.
Eins og fyrr segir þarf Stefán að greiða bankanum 50 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum. Einnig þarf hann að greiða bankanum 500 þúsund krónur í málskostnað.
Sjá einnig:
Okrað á Pólverjum sem bjuggu sjö saman í íbúð Vörn Stefáns í málinu snéri að því að krafa bankans yrði látin niður falla vegna fyrningar, að öllu leyti eða hluta, enda reiknist fyrningarfrestur krafna sem stofnist vegna vanefnda frá þeim degi þegar samningur sé vanefndur, en ekki hafi verið greitt af kröfu stefnanda síðan í september 2008 og almennur frestur kröfuréttinda sé fjögur ár.
Fram kemur einnig í vörn Stefáns að rekstur fyrirtækisins Húsaleiga ehf. hafi hrunið í október 2008 og þá hafi hann orðið eignalaus. Stefán hafi því ekki haft neitt svigrúm til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt sjálfskuldarábyrgðinni. Því fór hann fram á það að verða sýknaður af kröfu Landsbankans.
Í apríl 2007 hótaði Stefán því að fara í mál við Ísland í dag vegna umfjöllunar um aðbúnað erlendra verkamanna hér á landi og leiguhúsnæði sem þeir bjuggu í á vegum Húsaleigu ehf.
Var skorað á ritstjóra Íslands í dag að hætta áframhaldandi umfjöllun um Húsaleigu ehf og forsvarsmenn til að baka sér ekki auknar refs- og skaðabótakröfur í fyrirhuguðu dómsmáli. Dómsmálið var aldrei höfðað.