Viðskipti innlent

Fjármálaráðuneytið tilbúið að fjármagna kaup á skattagögnum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Bjarni Benediktsson hefur skipað starfshóp sem mun skoða skattalöggjöfina hér á landi og hvort skattayfirvöld hafi næg úrræði til þess að takast á við meint skattsvik.
Bjarni Benediktsson hefur skipað starfshóp sem mun skoða skattalöggjöfina hér á landi og hvort skattayfirvöld hafi næg úrræði til þess að takast á við meint skattsvik.
Fjármálaráðuneytið er reiðubúið að veita skattrannsóknarstjóra fjármagn til þess að kaupa gögn sem innihalda upplýsingar um Íslendinga sem nýta sér skattaskjól erlendis. Ráðuneytið setur það skilyrði að seljandi gagnanna fallist á að greiðslurnar nemi að hámarki tilteknu hlutfalli af því fjármagni sem næst með innheimtu á vangoldnum sköttum af eignum sem faldar eru í skattaskjólum.

Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins sem birtist á vef þess á öðrum tímanum í dag. Í henni kemur jafnframt fram að ráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að skattrannsóknarstjóri hafi sjálfstæða skyldu til að leggja mat á virði eða mikilvægi gagnanna sem kaupa á, fyrir þau verkfeni sem embættið sinnir.

Einnig kemur fram í tilkynningunni að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra, hafi skipað starfshóp sem mun skoða hvort ástæða sé að taka upp svkölluð „Amnesty“ ákvæði í íslensk skattalög. Það þýðir að þeir sem eigi fjármagn eða eignir sem faldar eru í erlendum skattaskjólum fái leyfi til þess að gera grein fyrir þeim og borga af þeim skatt hér á landi án þess að vera refsað. Hópurinn mun jafnframt leggja mat á hvort lagaheimildir skattayfirvalda til öflunar upplýsinga í baráttunni gegn skattsvikum séu fullnægjandi.

Tilkynningin er svo í heild sinni:

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur undanfarið skoðað hvort þörf sé á að treysta og skýra betur valdheimildir skattyfirvalda og annarra stjórnvalda til að sporna gegn skattundanskoti og skattsvikum. Tilefnið er m.a. að skattrannsóknarstjóra voru boðnar upplýsingar til kaups fyrr á árinu um aflandsfélög skráð í eigu Íslendinga í þekktum skattaskjólum.



Ráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að skattrannsóknarstjóri hafi sjálfstæða skyldu til að leggja mat á virði eða mikilvægi gagnanna fyrir þau verkefni sem embættið sinnir. Gengið er út frá því að sama gildi hér og um aðra ríkisaðila að ekki verði gerðir samningar við aðra en þá sem til þess eru bærir, enda hefur ekki annað komið fram en að gögnin séu föl frá slíkum aðila.


Meti skattrannsóknarstjóri það svo að gögnin geti nýst embættinu við úrlausn mála sem það sinnir og að mögulegt sé að skilyrða greiðslu til seljanda gagnanna þannig að þær nemi að hámarki tilteknu hlutfalli af innheimtu þeirra skattkrafna sem af gögnunum leiðir er ráðuneytið reiðubúið að tryggja þær fjárheimildir sem nauðsynlegar eru til að ráðast í öflun umræddra gagna, með eðlilegum fyrirvörum um sarmáð áður en til skuldbindinga er gengið.

Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra tekið ákvörðun um að skipa starfshóp sem mun skoða hvort ástæða sé til að taka upp svokölluð „Amnesty“ ákvæði í íslensk skattalög, svipað og gert hefur verið í nágrannalöndunum okkar. Hópurinn mun jafnframt leggja mat á það hvort lagaheimildir skattyfirvalda til öflunar upplýsinga í baráttunni gegn skattsvikum séu fullnægjandi. Hópurinn skilar niðurstöðum til ráðherra eigi síðar en 15.febrúar 2015.

Í starfshópnum sitja

Ása Ögmundsdóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, formaður.

Guðrún Jenný Jónsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af ríkisskattstjóra,

Lísa K. Yoder, lögfræðingur, tilnefnd af skattrannsóknarstjóra og

Guðni Ólafsson, viðskiptafræðingur, tilnefndur af tollstjóra.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×