Innlent

Bankasýslan aftur á fjárlög

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir/GVA
Bankasýsla ríkisins kemur aftur á fjárlög til að hún geti starfað fyrstu mánuði næsta árs. Ekki var gert ráð fyrir því að stofnunin fengi fé til að reka sig heldur átti að færa verkefni hennar inn í fjármálaráðuneytið. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í gærkvöldi.

„Það eru þá einhverjar lágmarksfjárheimildir til þess að halda úti þessari litlu starfsemi sem þarna er,“ sagði hann.

„Bankasýslan er í raun og veru tveir starfsmenn og síðan sá þriðji sem er í skjalavörslu og upplýsingaskjölun og fyrir stofnuninni eru síðan þrír stjórnarmenn, það er að segja jafn margir í stjórn og starfa hjá stofnuninni,“ sagði Bjarni. Benti hann á að hagræðingarhópur stjórnvalda hefði lagt til að stofnunin yrði lögð niður fyrir áramót.

Það gekk þó ekki eftir og enn er ekki búið að ákveða framtíðarskipan þeirra verkefna sem stofnunin sinnir. Hún heldur utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjunum, til að mynda stóru viðskiptabönkunum þremur.

Bjarni sagðist hafa vonast til að geta svarað spurningum um framtíð bankasýslunnar með nýju þingmáli en að það hafi ekki gefist tími til þess. Það yrði leyst með því að veita fé til að reka stofnunina í nokkra mánuði á meðan nýtt fyrirkomulag yrði ákveðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×