Innlent

Fengu lögreglufylgd upp á fæðingardeild

Jóhann Óli Eiðsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Þessi stúlka var svolítið að flýta sér í heiminn.
Þessi stúlka var svolítið að flýta sér í heiminn. Vísir
Þriðja barn Páls Vilhjálmssonar og Sigurbjargar Kristjánsdóttur var svo sannarlega að flýta sér í heiminn síðastliðinn miðvikudag. Þeim fæddist heilbrigð stúlka en hún hefði væntanlega fæðst í bílnum þeirra ef ekki hefði verið fyrir lögreglufylgd sem þau fengu upp á fæðingardeild.

„Þetta var þannig að á miðvikudagsmorgun þá fór konan mín af stað. Það byrjuðu hríðir og hríðaverkir með löngu millibili. Við vorum stödd í Grafarvogi og hin tvö börnin okkar hafa fæðst frekar hratt. Við vildum því frekar vera fyrr á ferðinni heldur en hitt,“ segir Páll í samtali við Vísi.

Þegar þau komu á spítalann duttu hríðirnar niður hjá Sigurbjörgu. Hún fór í tékk og í kjölfarið fengu þau að velja hvort þau yrðu áfram á spítalanum eða færu heim. Páll og Sigurbjörg ákváðu að fara heim og lögðu sig aðeins.

„Síðan fór konan mín af stað með þessum líka hvelli. Við lögðum af stað undir eins en hún var komin í rembing við Egilshöllina. Þannig að þá var fátt annað í stöðunni en að keyra frekar greitt,“ segir Páll.

Þau lentu svo á rauðum ljósum á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegs en svo heppilega vildi til að lögreglubíll var þar við hliðina á þeim:

„Við skrúfuðum bara niður rúðuna og fengum forgangsakstur. Það rétt náðist að koma Sigurbjörgu í hjólastól og upp á deild. Þegar þangað var komið sást í kollinn á barninu þannig þetta var aðeins mínútuspursmál. Ég veit ekki hvort við hefðum komist alla leið ef ekki hefði verið fyrir lögreglubílinn,“ segir Páll.

Stúlkan sem var að flýta sér svona í heiminn á fyrir tvö eldri systkini, bróður fæddan í janúar 2011 og systur fædda í apríl 2013.

Í kjölfarið á þessari æsiferð á fæðingardeildina hafði Páll samband við lögregluna í gegnum Facebook:

„Þeir fundu út hverjir höfðu verið á vakt og komu kveðjunni á réttan stað. Ég vildi hrósa þeim örlítið fyrir aðstoðina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×