Fótbolti

Langþráður sigur Verona | Roma aðeins einu stigi frá toppnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Verona fagna marki Luca Toni. Emil er fyrir miðju með sárabindi um höfuðið.
Leikmenn Verona fagna marki Luca Toni. Emil er fyrir miðju með sárabindi um höfuðið. vísir/getty
Emil Hallfreðsson lék allan leikinn fyrir Verona sem bar sigurorð af Udinese, 1-2, í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Þetta var fyrsti sigur Verona í átta leikjum.

Antonio Di Natale kom Udinese yfir á 31. mínútu, en önnur gömul kempa, Luca Toni, jafnaði fyrir Verona í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Þetta var fimmta deildarmark þessa 37 ára gamla framherja í vetur.

Það var síðan Grikkinn Lazaros Christodoulopoulos sem skoraði sigurmark Verona strax í byrjun seinni hálfleiks.

Emil stóð fyrir sínu inni á miðjunni hjá Verona, en 79,3% sendinga íslenska landsliðsmannsins rötuðu á samherja í leiknum.

Roma minnkaði forystu Juventus á toppi deildarinnar niður í eitt stig með 0-1 sigri á Genoa á útivelli. Radja Nainggolan skoraði eina mark leiksins á 40. mínútu, en níu mínútum áður hafði samherji hans, Adem Ljajic, misnotað vítaspyrnu.

Juventus, sem gerði jafntefli við Sampdoria fyrr í dag, er með 36 stig í toppsætinu, en Roma kemur þar á eftir með 35 stig.

Þá gerðu Parma og Cagliari markalaust jafntefli, en bæði lið eru í fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×