Erlent

Barðist hetjulega við hákarl

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
vísir/GETTY
Nýsjálenskur læknir, James Grant, lifði af árás hákarls. James fældi hákarlinn burt með hníf og saumaði sjálfur sár sem hann fékk í átökunum. Guardian segir frá. 

Læknirinn kom svo við á bar og fékk sér bjór áður en hann fór á sjúkrahús til aðhlynningar.

Grant, sem er 24 ára unglæknir, var á veiðum með vinum sínum á strönd í Nýja-Sjálandi þegar hann varð fyrir árásinni. Hann var á um tveggja metra dýpi þegar hann fann fyrir að einhver hafði tekið utan um fót hans. Hann hélt í fyrstu að einhver vinur hans væri að stríða honum.

„Þegar ég leit niður sá ég að svo var ekki og það var talsvert áfall,“ sagði Grant. Hann sá hákarlinn þó ekki almennilega og veit því ekki hversu stór hann var. Hann varð þó ekki mjög hræddur og hugsaði bara um að losa fótinn.

Þar sem hann var með hníf í hönd ákvað hann að stinga hákarlinn. „Ég veit ekki hversu mikil áhrif það hafði á hann en að minnsta kosti losaði hann takið og lét sig hverfa,“ segir Grant. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×