Feimna hestastelpan sem þorði ekki í leikprufur Friðrika Benónýsdóttir skrifar 4. október 2014 09:30 Svandís Dóra. „Það eru einhverjar viðræður í gangi um möguleg hlutverk í bíóum og sjónvarpsþáttum, en ekkert niðurneglt.“ Vísir/Stefán Svandís Dóra bíður mín við starfsmannainngang Þjóðleikhússins í rigningu og roki, klædd stuttum pels og hnéháum grænum gúmmístígvélum á la Kate Moss. Ég hrylli mig yfir veðurofsanum en hún hlær að aumingjaskapnum í mér og segist vera alvön því að vera úti í öllum veðrum, enda nánast alin upp á hestbaki. „Ég er fædd og uppalin í Kópavogi, en foreldrar mínir eru mikið hestafólk og eiga land uppi í Gnúpverjahreppi þar sem við erum með hestana, þannig að ég segist alltaf vera fiftí fiftí úr Kópavoginum og Gnúpverjahreppnum, enda er ég mikil sveitastelpa og kann best við mig í lopapeysu og stígvélum.“ Fjölskyldan er stór, Svandís á tvær alsystur og tvö hálfsystkin, en hún er örverpið, tíu árum yngri en systirin á undan. „Við erum samt öll jafnmikil systkini, það hefur alltaf verið mikill samgangur á milli og við erum mjög náin.“Vildi komast í Nemó Svandís er dóttir Einars Bollasonar, sem sat saklaus í fangelsi í Geirfinnsmálinu, en það var löngu áður en hún fæddist og hún segist ekki vilja tjá sig um það mál. Móðir hennar er Sigrún Ingólfsdóttir sem stundaði ballett á yngri árum og heimsóknir í leikhúsið voru fastur liður í uppeldinu. Það var þó ekki fyrr en í Verzlunarskólanum sem Svandís lét reyna á þann draum sinn að stíga á svið. „Ég var í Kópavogsskóla allan grunnskólann og lék eitthvað smávegis í skólaleikritum en langaði alltaf að verða leikkona og fór í Verzló til að geta tekið þátt í sýningum Nemó. Mamma og pabbi voru reyndar ekkert voðalega hrifin af því að ég legði leiklistina fyrir mig, fannst fylgja því lítið starfsöryggi, en mér fannst sniðugt að fara í verslunarskóla, sem er mjög alhliða nám, og halda þannig öllum möguleikum opnum um leið og ég gæti fengið útrás fyrir leiklistarbakteríuna. Ég var reyndar svo hræðilega feimin að ég þorði aldrei í prufur fyrir leiksýningarnar, fyrir utan það að ég var oftast að keppa á hestum á sama tíma og æfingar áttu að hefjast. Það var ekki fyrr en á síðasta árinu mínu að ég fór í prufu og fékk þá hlutverk í Sólsting sem Jóhann G. Jóhannsson var að leikstýra og hann sparkaði í rassinn á mér og sannfærði mig um að ég yrði að láta reyna á það að verða leikkona.“Skólakerfið drap skriflöngunina Hvaðan kom þessi leiklistaráhugi? „Veistu, ég eiginlega veit það ekki, það eru engir leikarar í minni fjölskyldu. Ég hafði bara alltaf þessa þörf fyrir að skapa eitthvað. Ég var náttúrulega langyngst og pabbi og mamma voru mikið að vinna þannig að ég byrjaði snemma að skrifa sögur og teikna til að hafa ofan af fyrir mér. Ég hef alltaf verið mikil draumóramanneskja og get auðveldlega gleymt mér við að skapa heilu heimana í höfðinu á mér. Hætti reyndar alveg að skrifa og teikna á tímabili en er nú búin að koma mér upp trönum og finnst gott að mála til að hreinsa hugann. Fer gjarna upp í bústað þar sem við erum með hestana, tek trönurnar með mér og hleð batteríin ein í náttúrunni.“ Hvað með skriftirnar, hefurðu verið að skrifa eitthvað? „Nei, þótt mér fyndist gaman að skrifa sögur þegar ég var krakki þá drap skólakerfið þá löngun niður. Allar ritgerðir þurftu að fara eftir settum reglum, sem mér fannst ógeðslega þurrar og leiðinlegar. Ég fékk aldrei nógu gott fyrir ritgerðir, að mínu mati, þannig að ég beit það bara í mig að ég gæti ekki skrifað. Mér finnst alveg nóg að hafa sögurnar í hausnum. Er líka voða dugleg við að skoða fólk, oft ómeðvitað, og á það til að gleyma mér í margmenni við það að velta fólki fyrir mér og ímynda mér líf þess, sem sumum finnst eflaust mjög óþægilegt.“Fann ástina á föstudaginn langa Þrátt fyrir hvatningu leikstjórans lá leiðin úr Verzlunarskólanum ekki beint í leiklistarnám. „Ég hafði verið að vinna með skólanum í Jack and Jones og Selected og eftir útskrift bauðst mér verslunarstjórastaða þar sem ég þáði. Eftir eitt ár þar fann ég að ég bara varð að láta reyna á leiklistina, skráði mig í ensku uppi í Háskóla til að undirbúa það að fara í leiklistarnám erlendis. Mig langaði bara ekkert að vera á Íslandi á þessum tíma og var á fullu að skoða leiklistarskóla í Bretlandi og Bandaríkjunum. Í Háskólanum fór ég að leika með Stúdentaleikhúsinu og kynntist fullt af fólki með leiklistaráhuga sem stefndi á að sækja um í Listaháskólanum. Ég ákvað að gefa því séns, fór í inntökupróf og komst inn, mér alveg að óvörum. Útskrifaðist 2010 og hef blessunarlega getað unnið við leiklistina síðan.“ Í Nemendaleikhúsinu urðu örlögin á vegi Svandísar þegar Sigtryggur Magnason leikskáld var fenginn til að skrifa verk fyrir hópinn. „Við kynntumst í Nemendaleikhúsinu um haustið en það gerðist ekkert á milli okkar þar. Um páskana fór ég síðan að heimsækja skólasystur mína vestur á Ísafjörð með bekknum mínum og þá var Sigtryggur staddur þar og við hittum hann. Svo bara gerðist eitthvað á föstudaginn langa, við stukkum bæði á ölduna sem skall yfir okkur og höfum verið saman síðan.“ Trúlofun Svandísar og Sigtryggs á síðasta ári komst í blöðin, enda tilþrifamikið atriði á alblóðugu leiksviði í Berlín, eru þau búin að ákveða brúðkaupsdaginn? „Ekki daginn, en við stefnum að því að gifta okkur næsta sumar. Við erum ekki búin að skipuleggja það í smáatriðum, það eina sem er alveg öruggt er að það verður uppi í sveit.“Heimsmeistari í hlýðni Á hestbaki kannski? Ertu ekki enn á kafi í hestamennskunni? „Jú, jú, en ég hætti að keppa þegar ég var í Nemendaleikhúsinu og hef ekki keppt síðan, nema reyndar einu sinni síðastliðinn vetur. Ég var búin að vera svo lengi í því, keppa á mörgum landsmótum og vera í unglingalandsliðinu, varð til dæmis heimsmeistari í hlýðni eitt árið. Það þótti bekkjarsystkinum mínum í Listaháskólanum óskaplega fyndið, enda er ég ekkert mjög hlýðin. Hef alltaf haft mikla þörf fyrir að stjórna, hef aðeins fengist við að leikstýra og langar að gera meira af því. Ef ég fer í mastersnám langar mig að taka leikstjórn, og þá helst kvikmyndaleikstjórn, en ég veit ekki ennþá hvenær af því verður.“ Þið eruð ekkert farin að skipuleggja barneignir í framhaldi af brúðkaupinu? „Jú, jú, mér finnst ég bara aldrei vera tilbúin. Ég á hins vegar þrjú stjúpbörn með Sigtryggi og þau eru hjá okkur aðra hverja viku svo ég hef alveg fengið að spreyta mig í móðurhlutverkinu síðustu fjögur ár. Auðvitað voru það viðbrigði að vera komin með þrjú börn á heimilið en þau eru alveg yndisleg og tóku mér strax mjög vel. Það hefur verið alveg ómetanlegt að fá að fara með þeim inn í unglingsárin og ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa þau í lífi mínu. Þau hafa kennt mér svo margt.“ Stærsta hlutverk Svandísar til þessa var þokkagyðjan Diana Klein í kvikmyndinni um Harry og Heimi: Morð eru til alls fyrst, langar hana ekkert til að koma sér á framfæri í kvikmyndaheiminum erlendis? „Jú, alveg eins. Ég er eiginlega fyrst núna komin með efni til að gera kynningarræmu en ég er ekkert mikið fyrir það að plana of langt fram í tímann. Það eru einhverjar viðræður í gangi um möguleg hlutverk í bíóum og sjónvarpsþáttum, en ekkert niðurneglt. Núna er ég á samningi við Þjóðleikhúsið, vinn með yndislegu fólki sem ég lít upp til og læri mikið af. Það er svo margt sem mig langar að gera, en fyrst og fremst ætla ég að halda mínu striki. Mér finnst skipta mestu máli að reyna að vera góð manneskja, rækta sjálfan sig, fólkið sem maður elskar og finna sinn eigin takt.“ Menning Mest lesið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga með nýja sketsaseríu um jólin Bíó og sjónvarp Frambjóðendur stigu trylltan dans með unga fólkinu Lífið Adele kveður sviðið um óákveðinn tíma Lífið Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Lífið Ferðast umhverfis jörðina á 38 dögum Lífið Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Eins og að setja bensín á díselbíl Heilsa Fleiri fréttir Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Sjá meira
Svandís Dóra bíður mín við starfsmannainngang Þjóðleikhússins í rigningu og roki, klædd stuttum pels og hnéháum grænum gúmmístígvélum á la Kate Moss. Ég hrylli mig yfir veðurofsanum en hún hlær að aumingjaskapnum í mér og segist vera alvön því að vera úti í öllum veðrum, enda nánast alin upp á hestbaki. „Ég er fædd og uppalin í Kópavogi, en foreldrar mínir eru mikið hestafólk og eiga land uppi í Gnúpverjahreppi þar sem við erum með hestana, þannig að ég segist alltaf vera fiftí fiftí úr Kópavoginum og Gnúpverjahreppnum, enda er ég mikil sveitastelpa og kann best við mig í lopapeysu og stígvélum.“ Fjölskyldan er stór, Svandís á tvær alsystur og tvö hálfsystkin, en hún er örverpið, tíu árum yngri en systirin á undan. „Við erum samt öll jafnmikil systkini, það hefur alltaf verið mikill samgangur á milli og við erum mjög náin.“Vildi komast í Nemó Svandís er dóttir Einars Bollasonar, sem sat saklaus í fangelsi í Geirfinnsmálinu, en það var löngu áður en hún fæddist og hún segist ekki vilja tjá sig um það mál. Móðir hennar er Sigrún Ingólfsdóttir sem stundaði ballett á yngri árum og heimsóknir í leikhúsið voru fastur liður í uppeldinu. Það var þó ekki fyrr en í Verzlunarskólanum sem Svandís lét reyna á þann draum sinn að stíga á svið. „Ég var í Kópavogsskóla allan grunnskólann og lék eitthvað smávegis í skólaleikritum en langaði alltaf að verða leikkona og fór í Verzló til að geta tekið þátt í sýningum Nemó. Mamma og pabbi voru reyndar ekkert voðalega hrifin af því að ég legði leiklistina fyrir mig, fannst fylgja því lítið starfsöryggi, en mér fannst sniðugt að fara í verslunarskóla, sem er mjög alhliða nám, og halda þannig öllum möguleikum opnum um leið og ég gæti fengið útrás fyrir leiklistarbakteríuna. Ég var reyndar svo hræðilega feimin að ég þorði aldrei í prufur fyrir leiksýningarnar, fyrir utan það að ég var oftast að keppa á hestum á sama tíma og æfingar áttu að hefjast. Það var ekki fyrr en á síðasta árinu mínu að ég fór í prufu og fékk þá hlutverk í Sólsting sem Jóhann G. Jóhannsson var að leikstýra og hann sparkaði í rassinn á mér og sannfærði mig um að ég yrði að láta reyna á það að verða leikkona.“Skólakerfið drap skriflöngunina Hvaðan kom þessi leiklistaráhugi? „Veistu, ég eiginlega veit það ekki, það eru engir leikarar í minni fjölskyldu. Ég hafði bara alltaf þessa þörf fyrir að skapa eitthvað. Ég var náttúrulega langyngst og pabbi og mamma voru mikið að vinna þannig að ég byrjaði snemma að skrifa sögur og teikna til að hafa ofan af fyrir mér. Ég hef alltaf verið mikil draumóramanneskja og get auðveldlega gleymt mér við að skapa heilu heimana í höfðinu á mér. Hætti reyndar alveg að skrifa og teikna á tímabili en er nú búin að koma mér upp trönum og finnst gott að mála til að hreinsa hugann. Fer gjarna upp í bústað þar sem við erum með hestana, tek trönurnar með mér og hleð batteríin ein í náttúrunni.“ Hvað með skriftirnar, hefurðu verið að skrifa eitthvað? „Nei, þótt mér fyndist gaman að skrifa sögur þegar ég var krakki þá drap skólakerfið þá löngun niður. Allar ritgerðir þurftu að fara eftir settum reglum, sem mér fannst ógeðslega þurrar og leiðinlegar. Ég fékk aldrei nógu gott fyrir ritgerðir, að mínu mati, þannig að ég beit það bara í mig að ég gæti ekki skrifað. Mér finnst alveg nóg að hafa sögurnar í hausnum. Er líka voða dugleg við að skoða fólk, oft ómeðvitað, og á það til að gleyma mér í margmenni við það að velta fólki fyrir mér og ímynda mér líf þess, sem sumum finnst eflaust mjög óþægilegt.“Fann ástina á föstudaginn langa Þrátt fyrir hvatningu leikstjórans lá leiðin úr Verzlunarskólanum ekki beint í leiklistarnám. „Ég hafði verið að vinna með skólanum í Jack and Jones og Selected og eftir útskrift bauðst mér verslunarstjórastaða þar sem ég þáði. Eftir eitt ár þar fann ég að ég bara varð að láta reyna á leiklistina, skráði mig í ensku uppi í Háskóla til að undirbúa það að fara í leiklistarnám erlendis. Mig langaði bara ekkert að vera á Íslandi á þessum tíma og var á fullu að skoða leiklistarskóla í Bretlandi og Bandaríkjunum. Í Háskólanum fór ég að leika með Stúdentaleikhúsinu og kynntist fullt af fólki með leiklistaráhuga sem stefndi á að sækja um í Listaháskólanum. Ég ákvað að gefa því séns, fór í inntökupróf og komst inn, mér alveg að óvörum. Útskrifaðist 2010 og hef blessunarlega getað unnið við leiklistina síðan.“ Í Nemendaleikhúsinu urðu örlögin á vegi Svandísar þegar Sigtryggur Magnason leikskáld var fenginn til að skrifa verk fyrir hópinn. „Við kynntumst í Nemendaleikhúsinu um haustið en það gerðist ekkert á milli okkar þar. Um páskana fór ég síðan að heimsækja skólasystur mína vestur á Ísafjörð með bekknum mínum og þá var Sigtryggur staddur þar og við hittum hann. Svo bara gerðist eitthvað á föstudaginn langa, við stukkum bæði á ölduna sem skall yfir okkur og höfum verið saman síðan.“ Trúlofun Svandísar og Sigtryggs á síðasta ári komst í blöðin, enda tilþrifamikið atriði á alblóðugu leiksviði í Berlín, eru þau búin að ákveða brúðkaupsdaginn? „Ekki daginn, en við stefnum að því að gifta okkur næsta sumar. Við erum ekki búin að skipuleggja það í smáatriðum, það eina sem er alveg öruggt er að það verður uppi í sveit.“Heimsmeistari í hlýðni Á hestbaki kannski? Ertu ekki enn á kafi í hestamennskunni? „Jú, jú, en ég hætti að keppa þegar ég var í Nemendaleikhúsinu og hef ekki keppt síðan, nema reyndar einu sinni síðastliðinn vetur. Ég var búin að vera svo lengi í því, keppa á mörgum landsmótum og vera í unglingalandsliðinu, varð til dæmis heimsmeistari í hlýðni eitt árið. Það þótti bekkjarsystkinum mínum í Listaháskólanum óskaplega fyndið, enda er ég ekkert mjög hlýðin. Hef alltaf haft mikla þörf fyrir að stjórna, hef aðeins fengist við að leikstýra og langar að gera meira af því. Ef ég fer í mastersnám langar mig að taka leikstjórn, og þá helst kvikmyndaleikstjórn, en ég veit ekki ennþá hvenær af því verður.“ Þið eruð ekkert farin að skipuleggja barneignir í framhaldi af brúðkaupinu? „Jú, jú, mér finnst ég bara aldrei vera tilbúin. Ég á hins vegar þrjú stjúpbörn með Sigtryggi og þau eru hjá okkur aðra hverja viku svo ég hef alveg fengið að spreyta mig í móðurhlutverkinu síðustu fjögur ár. Auðvitað voru það viðbrigði að vera komin með þrjú börn á heimilið en þau eru alveg yndisleg og tóku mér strax mjög vel. Það hefur verið alveg ómetanlegt að fá að fara með þeim inn í unglingsárin og ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa þau í lífi mínu. Þau hafa kennt mér svo margt.“ Stærsta hlutverk Svandísar til þessa var þokkagyðjan Diana Klein í kvikmyndinni um Harry og Heimi: Morð eru til alls fyrst, langar hana ekkert til að koma sér á framfæri í kvikmyndaheiminum erlendis? „Jú, alveg eins. Ég er eiginlega fyrst núna komin með efni til að gera kynningarræmu en ég er ekkert mikið fyrir það að plana of langt fram í tímann. Það eru einhverjar viðræður í gangi um möguleg hlutverk í bíóum og sjónvarpsþáttum, en ekkert niðurneglt. Núna er ég á samningi við Þjóðleikhúsið, vinn með yndislegu fólki sem ég lít upp til og læri mikið af. Það er svo margt sem mig langar að gera, en fyrst og fremst ætla ég að halda mínu striki. Mér finnst skipta mestu máli að reyna að vera góð manneskja, rækta sjálfan sig, fólkið sem maður elskar og finna sinn eigin takt.“
Menning Mest lesið Frumsýning á Vísi: Steindi og Saga með nýja sketsaseríu um jólin Bíó og sjónvarp Frambjóðendur stigu trylltan dans með unga fólkinu Lífið Adele kveður sviðið um óákveðinn tíma Lífið Hvað eru konur í framboði að hlusta á? Lífið Hraðfréttir verða Hlaðfréttir Lífið Ferðast umhverfis jörðina á 38 dögum Lífið Krakkatían: Eyðimerkur, býflugur og kjólar Lífið Sjáðu Nínu Dögg sem Vigdísi í fyrstu stiklunni Bíó og sjónvarp Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Eins og að setja bensín á díselbíl Heilsa Fleiri fréttir Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Sjá meira