Fyrir keppnina var ljóst að vandamál voru með stýri Nico Rosberg. Hann var kominn af þjónustusvæðinu til að koma sér fyrir á ráslínunni, hann þurfti að skipta um stýri. Þrátt fyrir það var Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes ekki sannfærður um að vandamálið væri leyst.
Rosberg sat eftir á ráslínunni þegar aðrir fóru í uphitunarhring. Dagurinn hans byrjaði alls ekki vel. Hann þurfti að ræsa frá þjónustusvæðinu.
Kamui Kobayashi á Caterham hætti keppni áður en hún byrjaði. Hann lagði bíl sínum á þjónustuvegi þar sem fór að rjúka úr honum.
Það hófu allir ökumenn keppni á ofurmjúku dekkjunum. Það þorði enginn að taka áhættuna á öfugri keppnisáætlun. Fernando Alonso átti góða ræsingu en hunsaði seinni hluta fyrstu beygju. Hann hleypti Vettel svo fram úr sér. Dómarar keppninnar voru kátir með það og Alonso var ekki refsað fyrir að fara út úr braut.
Hamilton hafði lítið að gera í byrjun keppninnar, annað en að aka í hringi. Vettel hélt honum aðeins við efnið en á hlykkjóttri brautinni sáu þeir lítið af hvor öðrum.

Esteban Gutierrez hætti keppni á hring 17 og var allt annað en sáttur þegar hann steig upp úr Sauber bíl sínum. Rafgeymir bílsins hlóð sig ekki, hann var í þrettánda sæti og sá grilla í fyrstu stig Sauber á tímabilinu.
Alonso náði öðru sæti af Vettel þegar Vettel tók þjónustuhlé.
„Þetta var hræðileg tilfinning, stýrið virkaði alls ekki ég hafði ekki raforkuna, það var enginn tilgangur að halda áfram. Þjónustuhléð var kannski ógnvekjandi fyrir fólkið í kringum bílinn. Toto baðst afsökunnar þegar hann talaði við mig áðan sem var gott að heyra,“ sagði niðurlútur Rosberg eftir að þáttöku hans í keppninni lauk.
Öryggisbíllinn var kallaður út á 31. hring. þegar Sergio Perez á Force India og Adrian Sutil á Sauber lentu saman. Framvængurinn á bíl Perez brotnaði af og skyldi eftir mikið af koltrefja brotum um alla braut. Alonso nýtti tækifærið ásamt fleirum til að sækja fersk dekk. Alonso ætlaði greinilega elta Hamilton uppi. Öryggisbíllinn kom svo inn á hring 36.
Í endurræsingunni var Hamilto fremstur með Vettel, Ricciardo og svo Alonso á eftir sér. Hamilton þurfti virkilega að stinga þvöguna af ef hann ætlaði sér að vinna keppnina. Hann átti enn eftir að setja mjúku dekkin undir og þurfti því að taka þjónustuhlé.
Adrian Sutil hætti keppni á 40. hring. Báðir Sauber bílarnir voru því dottnir úr keppni.
Hamilton setti í fluggír eftir að öryggisbíllinn fór inn og náði að byggja upp nægja forystu til að ná öðru sætinu eftir þjónustuhléð.
Vettel leiddi sinn fyrsta hring í keppni á tímabilinu. Hann hélt þó fyrsta sætinu ekki nema rétt rúmlega einn hring. Hamilton náði aftur forystu.
Jenson Button á McLaren hætti keppni á 53. hring. Hann missti vélarafl.
„Auðvitað dreymdi mig um þetta í gærkvöldi. Ég hefði aldrei getað gert þetta án liðsins. Mér leið ágætlega þrátt fyrir að hljóma stressaður í talstöðinni. Auðvitað er niðurstaðan ekki fullkomin fyrir liðið því Nico kláraði ekki við vildum ná fyrsta og öðru það hefur engum tekist það hér, við ætluðum að ná því,“ sagði Hamilton hæstánægður með að ná fyrsta sætinu.
„Þetta er frábær braut. Það er gaman að sjá alla áhorfendurnar. Öryggisbíllinn hentaði okkur afar illa. En okkur tókst að halda Fernando fyrir aftan og svo það var frábært. Gríðarlega erfið keppni og mikill hiti,“ sagði Vettel.
„Þetta er eins og önnur heimakeppni. Ég þarf að skoða hvort ég hefði átt að fá sætið frá Fernando í upphafi en það hefði ekki skipt miklu máli,“ sagði Ricciardo.

1.Lewis Hamilton - Mercedes - 25 stig
2.Sebastian Vettel - Red Bull - 18 stig
3.Daniel Ricciardo - Red Bull - 15 stig
4.Fernando Alonso - Ferrari - 12 stig
5.Felipe Massa - Williams - 10 stig
6.Jean-Eric Vergne - Toro Rosso - 8 stig
7.Sergio Perez - Force India - 6 stig
8.Kimi Raikkonen - Ferrari - 4 stig
9.Nico Hulkenberg - Force India - 2 stig
10.Kevin Magnussen - McLaren - 1 stig
11.Valtteri Bottas - Williams
12.Pastor Maldonado - Lotus
13.Romain Grosjean - Lotus
14.Daniil Kvyat - Toro Rosso
15.Marcus Ericsson - Caterham
16.Jules Bianchi - Marussia
17.Max Chilton - Marussia
Kláruðu ekki:
Jenson Button - McLaren
Adrian Sutil - Sauber
Esteban Gutierrez - Sauber
Nico Rosberg - Mercedes
Kamui Kobayashi - Caterham
Hamilton leiðir nú heimsmeistarakeppni ökumanna með þriggja stiga forksot á Rosberg þegar fimm keppnir eru eftir.