Enski boltinn

AC Milan staðfestir viðræður um Balotelli

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Verða þeir liðsfélagar á næstu dögum?
Verða þeir liðsfélagar á næstu dögum? Vísir/Getty
AC Milan staðfesti rétt í þessu á heimasíðu sinni að félagið er í viðræðum við félag sem talið er að sé Liverpool um kaupverðið á Mario Balotelli, framherja ítalska stórveldisins. Balotelli gæti því snúið aftur í enska boltann átján mánuðum eftir að hann fór frá Manchester City.

Balotelli ætti að vera flestum áhugamönnum um enska boltann kunnugur en hann lék með Manchester City í rúmlega tvö ár.

Á þeim tíma náði Balotelli að skora sigurmark í nágrannaslag gegn Manchester City en deginum áður kveikti hann óvart í húsinu sínu þegar hann og vinir hans voru að fikta í flugeldum.

Balotelli fór afar vel af stað hjá AC Milan en hann skoraði tólf mörk í fyrstu þrettán leikjum sínum hjá félaginu eftir að hafa gengið til liðs við ítalska stórveldið í janúarglugganum. Honum tókst hinsvegar ekki að endurtaka það á síðasta tímabili þegar hann skoraði átján mörk í 41 leik.

Liverpool hefur verið að leita að nýjum framherja í stað hins umdeilda Luis Suárez sem þeir seldu til Barcelona í sumar og gæti annar vandræðagemsi tekið stöðu hans sem framherji Liverpool.

Fari svo að Liverpool gangi frá kaupunum á Balotelli á næstu dögum gæti fyrsti leikur hans fyrir félagið verið á kunnulegum slóðum en Liverpool á leik gegn Manchester City á Etihad vellinum á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×