Fótbolti

Löw: Fjarvera Neymar og Silva veikir ekki Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, á ekki von á veikara brasilísku liði þó svo að Thiago Silva og Neymar verði ekki með.

Liðin eigast við í undanúrslitum HM í Brasilíu annað kvöld. Silva, sem er fyrirliði Brasilíu, verður í banni og þá er Neymar frá vegna meiðsla.

Neymar er með brákaðan hryggjarlið en hann hefur skorað fjögur mörk og lagt upp eitt til viðbótar í fimm leikjum Brasilíu í keppninni til þessa.

„Það stafar ekki minni hætta af liðinu nú,“ sagði Löw. „Neymar er vissulega mjög sterkur leikmaður en fjarvera hans mun hleypa enn meiri krafti í félaga hans.“

„Þetta hefur gerst hjá öðrum liðum áður. Aðrir leikmenn þurfa að taka á sig meiri ábyrgð og liðið mun biðja þjóð sína um enn meiri stuðning nú þegar Neymar er frá.“

Joachim Löw á æfingu þýska landsliðsins.Vísir/Getty
Dante mun fylla léttilega í skarðið sem Thiago Silva skilur eftir sig. Enginn á von á því að hann muni spila verr gegn Þýskalandi en Silva myndi gera,“ sagði Löw en Dante er á mála hjá Bayern München.

Löw á því von á afar erfiðum leik. „Við erum að spila gegn 200 milljónum Brasilíumanna. Við verðum með heila þjóð gegn okkur. Maður getur ekki óskað sér neins betra en að spila gegn gestgjöfunum - nema kannski að vinna úrslitaleikinn.“

„En það er afar spennandi að vera kominn áfram í undanúrslit þessarar keppni.“


Tengdar fréttir

Neymar hélt að hann væri lamaður

Þjálfari brasilíska landsliðsins, Luiz Felipe Scolari, segir að stjarna liðsins, Neymar, hafi verið hræddur um að vera lamaður er hann meiddist í leiknum gegn Kólumbíu á föstudag.

Áfrýjun Silva hafnað

David Luiz verður fyrirliði Brasilíu í undanúrslitaleiknum gegn Þýskalandi.

Fyrsti fyrirliði Brasilíu til að skora á HM í 20 ár

Miðvörðurinn Thiago Silva skoraði sitt fyrsta mark á HM á frábærum tíma í kvöld þegar hann kom Brasilíu í 1-0 á móti Kólumbíu í leik liðanna í átta liða úrslitunum á HM í fótbolta í Brasilíu.

Læknir Brasilíumanna segir að Neymar verði ekki meira með á HM

Læknir brasilíska landsliðsins í fótbolta staðfesti í kvöld að Neymar, aðalstjarna brasilíska landsliðsins, verði ekki meira með á HM í fótbolta í Brasilíu en framherjinn snjalli meiddist á baki í kvöld í 2-1 sigri Brasilíu á Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×