Menning

Þriðjudagsklassík í klukkustund

Marín Manda skrifar
Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Domenico Codispoti og Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari.
Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Domenico Codispoti og Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari. Fréttablaðið/Valgarður Gíslason
Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Domenico Codispoti píanisti spila á tónleikum í Tónlistarskóla Garðabæjar í kvöld.

„Þetta er annað árið sem þessir tónleikar eru haldnir. Fyrstu tónleikarnir af þrennum fara fram í kvöld en svo verða þeir næstu tvo mánuðina, fyrsta þriðjudaginn í mánuðinum,“ segir Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópransöngkona og listrænn stjórnandi.

„Þetta er hugmynd sem fæddist hjá mér því ég tengist bænum. Ég er bæði búsett þar og er með kvennakór svo ég tengist menningunni hér í Garðabæ og langaði að efla hana enn frekar. Þessir tónleikar eru eitthvað sem er gaman fyrir bæjarbúa sem og alla á höfuðborgarsvæðinu.“

Tónleikarnir sem bera nafnið Þriðjudagsklassík eru haldnir í tónleikasal bæjarins sem Ingibjörg segir vera ótrúlega skemmtilegan fyrir kammertónleika því salurinn hafi yndisfagran hljómburð. Menningar- og safnanefnd Garðabæjar standa að tónleikunum en fram koma þau Sigrún Eðvaldsdóttir, fiðluleikari og konsertmeistari Sinfóníunnar, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Domenico Codispoti píanóleikari.

„Listamennirnir sem eru í öndvegi á tónleikunum hafa allir einhvers konar tengingu við Garðabæ, en á fyrstu tónleikunum er frekar mikið dúndur. Sigrún Eðvaldsdóttir og Bryndís Halla Gylfadóttir hafa fengið með sér ítalskan heimsklassa píanóleikara sem er margverðlaunaður píanisti úti um allan heim,“ segir Ingibjörg, um leið og hún hvetur alla til að mæta og njóta einnar klukkustundar og hlusta á fagra hljóma áður en gengið er út í vorkvöldið á ný.

Tónleikarnir eru haldnir í sal Tónlistarskóla Garðabæjar, Kirkjulundi 11, í Garðabæ kl. 20. Miðasala er við innganginn og aðgangseyrir er 1.500 krónur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×