Menning

Mjallhvít og dvergarnir sjö á sviði í Hveragerði

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Mjallhvít (Tanja Dögg Einarsdóttir) og dvergarnir vinir hennar.
Mjallhvít (Tanja Dögg Einarsdóttir) og dvergarnir vinir hennar. Mynd/Magnús Hlynur
„Þetta er barnasöngleikur, mjög flott sýning og það voru margar hendur sem komu að uppsetningunni,“ segir Jóhann Tryggvi Sigurðsson, formaður Leikfélags Hveragerðis um nýjustu uppfærslu félagsins.  Ævintýrið um Mjallhvíti og dvergana sjö.

Leikgerðin er eftir Hvergerðinginn Hafstein Þór Auðunsson, sem einnig leikstýrir verkinu. Tónlistin er líka eftir Hafstein Þór en er útsett af Guðmundi Eiríkssyni, píanóleikara sýningarinnar.

Leikararnir eru þrjátíu og tveir að sögn Jóhanns og eru á aldrinum átta til fimmtíu og fimm ára.

„Langflestir eru undir sextán ára aldri,“ upplýsir hann og segir öflugt barna- og unglingastarf víða unnið hjá áhugaleikfélögum. Þar læri krakkarnir að koma fram á sviði og temja sér öguð vinnubrögð.

Leikfélag Hveragerðis var stofnað 1947 og hefur sett upp sýningar á hverju ári síðan. Má þar nefna Jesus Christ Superstar, Sölku Völku, Mann og konu, Dýrin í Hálsaskógi, Kardimommubæinn, Skugga-Svein og Línu Langsokk.

„Allt starf áhugaleikfélaga er unnið í sjálfboðavinnu,“ segir Jóhann. „Þannig að þeir sem leggja hönd á plóg eru mesti fjársjóður félaganna.“

Gunnþóra Gunnarsdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.