Innlent

"Ríkisstjórnin með úrelt gildi“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Björk Guðmundsdóttir gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega á fréttamannafundi sem fór fram í Hörpu í dag.
Björk Guðmundsdóttir gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega á fréttamannafundi sem fór fram í Hörpu í dag.
Björk Guðmundsdóttir gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega á fréttamannafundi sem fór fram í Hörpu í dag. Boðað var til blaðamannafundarins vegna tónleika sem Björk mun halda, samhliða heimsfrumsýningar kvikmyndarinnar Noah í þágu náttúruverndar þann 18. mars.

Björk ávarpaði blaðamenn í beinni útsendingu í gegnum Skype. Darren Aronofsky, leikstjóri myndarinnar Noah, talaði einnig á fundinum, í gegnum Skype.

„Ég hef aldrei kosið og vandað mig við að vera þverpólitísk. En það er ekki hægt að neita því að þessi ríkisstjórn horfir tilbaka og er með úrelt gildi," sagði Björk þegar hún var spurð um ástæðu þess að hún komi fram á tónleikunum. 

Þann 18. mars mun Björk koma fram í Hörpu ásamt Of Monsters and Men, Retro Stefson, Patti Smith, Highland og Mammút. Yfirskrift tónleikanna er Stopp! Gætum garðsins og munu listamennirnir gefa vinnu sína í þágu náttúruverndar. Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd standa fyrir tónleikunum.

Kvikmyndin Noah verður einnig frumsýnd hér á landi þennan dag. Darren Aronofsky talaði fallega um Ísland á fundinum. Hann gefur frumsýninguna í þágu verndunar íslenskrar náttúru. 

Hann sagðist ekki eingöngu vera aðdáandi íslenskrar náttúru, heldur einnig aðdáandi Bjarkar. „Ég er í raun stressaður að fá að taka í höndina á henni,“ sagði Darren á fundinum.

Kikmyndin Noah var tekin upp hér á landi árið 2012 og skartar stjörnum á borð við Russel Crowe, Emmu Watson, Anthony Hopkins, Nick Nolte og Jennifer Connolly.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×