Menning

Þar ræður hauststemning ríkjum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Tríóið Aladár Rácz, Gunnhildur Halla og Ármann spila á 15.15. tónleikasyrpu Norræna hússins á morgun.
Tríóið Aladár Rácz, Gunnhildur Halla og Ármann spila á 15.15. tónleikasyrpu Norræna hússins á morgun.
„Ég hef sjaldan spilað jafn fjölbreytt prógram, við förum úr einu í annað en það er mjög gaman,“ segir Ármann Helgason klarínettuleikari um tónleikana í Norræna húsinu á morgun klukkan 15.15. Þeir hafa yfirskriftina Brahms, Bruch og blóðheitur tangó.

„Við fluttum þessa dagskrá í Hofi á Akureyri og hún féll í góðan jarðveg. Sérstaklega vakti verkið „Vertical Time Study“ eftir japanska tónskáldið Toshio Hosokawa mikla hrifningu. Það fjallar um það að höndla núið og fólk setti greinilega ímyndunaraflið í gang.“



Ármann segir dagskrána vísa til haustsins.



„Við hefjum leikinn á þremur lögum eftir Max Bruch en stærsta verkið er Brahms-tríóið op. 114, sem er mikill gullmoli í klarínettubókmenntunum og er samið á þessum árstíma.

Brahms hafði ekki samið neitt í þrjú ár og var sestur í helgan stein þegar hann heyrði virtan klarínettuleikara spila og hreifst svo að hann skrifaði fjögur klarínettuverk fyrir hann sem er ægifögur músík. Svo förum við til Argentínu í tangósveifluna þar, ryþmíska tónlist og flotta eftir argentínska tónskáldið Astor Piazzolla.“

Allt eru þetta verk fyrir klarínettu, selló og píanó og með Ármanni klarínettuleikara eru Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir á selló og Aladár Rácz á píanó.

„Það var mjög gaman að vinna með þessu fólki,“ segir Ármann og tekur fram að miðar séu seldir við innganginn á 2.000 krónur nema hvað eldri borgarar, öryrkjar og námsmenn greiði 1.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×