Innlent

„Ég er nefnilega svínabóndi og er því víst að margra mati algjör dýraníðingur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Yfirdýralæknir segir geldingar á íslenskum svínabúum vera ólöglegar.
Yfirdýralæknir segir geldingar á íslenskum svínabúum vera ólöglegar. myndir/fésbókarsíða Ormsstaða
Svínabændur hafa verið gagnrýndir töluvert að undanförnu en þeir hafna allfarið fullyrðingum fréttastofu Ríkisútvarpsins þess efnis að stundaðar séu ólöglegar geldingar á grísum á íslenskum svínabúum.

Í kvöldfréttum RÚV þann 24. maí sagði Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, geldingar eins og þær tíðkast nú á íslenskum svínabúum vera ólöglegar.

Hún ætli sér að gefa svínaræktendum aðlögunartíma til áramóta til að breyta starfsháttum sínum en Sigurborg vill meina að svín séu geld án deyfingar.

Á Fésbókarsíðu svínabúsins Ormsstaðir hefur svínabóndi sett inn færslu en þar fjallar hann um þær leiðir sem standa til boða þegar kemur að geldingu svína.

Hér að neðan má lesa skrif bóndans heild sinni:

Nú vil ég biðja þig um hjálp. Ég átta mig á því í dag að það er líklega einhver þarna úti talsvert færari en ég í því taka þá erfiðu ákvörðun sem ég þarf að taka. Ég er nefnilega svínabóndi og er því víst að margra mati algjör dýraníðingur. Ég tek það mjög nærri mér og verð ég að finna leið til að hætta því. En einu verður þú að lofa mér að ef þú getur hjálpað mér að velja leið, þá verður hún að vera þannig að það sé ekki erfiðara fyrir dýrið en í þeirri leið sem farin er í dag. Málið snýst um geldingar og ég hef fjóra kosti.

1. Fá dýralækni til að gelda með deyfingum. Til að deyfa almennilega fyrir geldingu þarf að stinga í eistað og það er mjög sársaukafullt. Ofan á þann sársauka er aðgerðin mikið lengri en hún er í dag og því miður heppnast deyfingin ekki alltaf. Í Noregi er þessi leið farin og fyrir stuttu fór ég í heimsókn á þrjú bú í Noregi til að skoða og ræða við bændur þar. Ég spurði þá hvort að þeir væru ánægðir með þessa lausn. Þeir sögðust vera það, ríkið borgar og neytandinn er sáttari við að vita af því að dýrið hafi verið deyft. En þeir tóku það fram að þetta væri ekki betra fyrir dýrið.

2. Bólusetning: Þetta er bóluefni sem þarf að gefa tvisvar á ævinni. Í fyrra skiptið er það gert á meðan grísirnir eru ekki orðnir það stórir þannig að það er ekki svo erfitt. Seinni bólusetningin er 4 -10 vikum fyrir slátrun og er skepnan þá um 100 kg og alls ekki auðvelt að eiga við það. Bóluefnið er þannig að ef þú ert karlmaður og stingur þig óvart með nálinni þá máttu ekki bólusetja aftur vegna hættu á að verða ófrjór. Óléttar konur mega ekki vinna með efnið. Ert þú tilbúin/n til að borða þetta kjöt? Ég er amk ekki tilbúin að þurfa að skipta um starfsmann í hvert skipti sem einhver stingur sig óvart. Ég hef hvorki efni á því að vera með marga starfsmenn eða að vera stöðugt að þjálfa upp nýtt starfsfólk.


Svínabændur á Íslandi segjast ekki stunda ólöglegar geldingar.visir/gva
3. Hætta alveg að gelda. Talið er að um 30% ógeltra galta sem slátrað er um 5 mánaða séu með galtarbragði. Mér er sagt að þetta sé ónothæft kjöt. En þetta fer einnig mikið eftir því hvernig búið er uppsett, fóðrun og erfðir. Gölturinn má ekki komast í snertingu við kvendýr og ekki fá neina örvun fram að slátrun. Ég er núna með tveggja vikna framleiðslu af ógeltum göltum til reynslu en þeir fara til slátrunar eftir um 5 mánuði. Ef illa fer verður öllum þessum göltum hent en ég verð þá amk búin að prófa þetta. Mig langar að vita hversu stór prósenta af kjötinu verður ónothæft og hversu mikið verður um árásargjörn dýr inn á búinu. Það tekur því miður 5 mánuði að komast að þessu en ég hef verið að bíða og vona að sláturhúsin væru til í gera þessa könnun með mér og kannski deila kostnaðinum. En nú get ég bara ekki beðið lengur. Við verðum að sjá hvort þetta verður vænlegur kostur.

4. Fjórði og síðasti kosturinn er að farga öllum dýrunum og hætta þessu. Mig langar alls ekki að gera það þar sem að allt er undir, heimilið mitt, vinnan mín og dýrin mín. Ég nýt þess að vinna með þessi dýr.

Af nágrannaþjóðum okkar er það eingöngu í Noregi sem að bændur gelda ekki sjálfir. Bretar gelda ekki og segja margir sem hafa borðað svínakjöt þar að það sé óætt. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig þessi tilraun kemur út hjá mér, þ.e. að gelda ekki og ég vona að þið leyfið mér að gera það. Ef ég get sýnt fram á það í sláturhúsinu að það sé hægt, þá get ég hætt að gelda í beinu framhaldi en þangað til þarf ég að eiga fyrir fóðri fyrir dýrin og eiga fyrir almennum rekstri. Því geldi ég með þeirri leið sem er leyfð fram að áramótum. Allir grísir sem við geldum fá verkjalyf. En ef þú ákveður í millitíðinni að hætta að borða svínakjöt þá mun ég ekki ná endum saman og kannski aldrei komast að því hvaða kostur er bestur.

Í samtali við fréttastofu vildi höfundur færslunnar ekki tjá sig nánar um málið. Í yfirlýsingu sem íslenskir svínabændur sendu frá sér 25. maí segir meðal annars;

Svínabændur hafna fullyrðingum fréttastofu Ríkisútvarpsins þess efnis að stundaðar séu ólöglegar geldingar á grísum á íslenskum svínabúum. Með hinum nýju lögum hafi reglur um geldingar á grísum verið hertar verulega frá því sem verið hefur.

Ákvæði íslenskra laga um geldingar og framkvæmd þeirra með þeim ströngustu sem þekkjast. Því hafa íslenskir svínabændur þurft að þróa aðferðir sem best henta til þess að uppfylla ákvæði laganna.

Svínabændur vinna nú að því í samstarfi við stjórnvöld að þróa slíkar aðferðir. Af þeim ástæðum hafa stjórnvöld veitt svínabændum svigrúm til þess að mögulegt verði að uppfylla skilyrði laganna.

Fullyrðingar fréttastofu Ríkisútvarpsins um að íslenskir svínabændur stundi lögbrot eru því rangar, í besta falli afar langsóttar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×