Menning

Lauk einleikaraprófi á píanó og fiðlu

Ugla Egilsdóttir skrifar
Jane Ade Sutarjo talar reiprennandi íslensku.
Jane Ade Sutarjo talar reiprennandi íslensku. FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
„Ég gat ekki ákveðið hvort ég vildi verða fiðluleikari eða píanóleikari,“ segir Jane Ade Sutarjo, sem er eini nemandinn sem hefur lokið einleikaraprófi á bæði fiðlu og píanó við Listaháskólann. „Á tímabili, þegar ég var sautján eða átján langaði mig að taka pásu á fiðlunni. Það komu líka tímar þar sem ég snerti ekki píanóið. En ég hætti alltaf við að hætta.“

Jane er frá Djakarta í Indónesíu. „Ég flutti til Íslands árið 2008 til að byrja að læra í Listaháskóla Íslands. Ég kynntist Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara á tónlistarhátíð í Bandaríkjunum sumarið 2005. Það er eiginlega allt henni að þakka að ég kom hingað. Henni og Gunnari Kvaran. Ég bjó hjá þeim í svolítinn tíma.“ Jane var þriggja og hálfs árs þegar hún byrjaði að læra á píanó. „Síðan byrjaði ég að læra á fiðlu fjögurra ára.“

„Ég segi ekki að það sé auðvelt að læra á tvö hljóðfæri,“ segir Jane. „Í raun er maður alltaf að æfa sig og læra. Ég veit ekki hvernig ég gat þetta. Mjög margir hljóðfæraleikarar æfa sig mjög lengi á hverjum degi, kannski í sex eða sjö tíma á dag. Ég æfði mig ekki svo lengi. Ég æfði hins vegar mjög skipulega, með fókus á eitthvert ákveðið atriði á hverri æfingu. Einn daginn fókuseraði ég kannski meira á fiðluna, og hinn daginn meira á píanóið.“

Jane á íslenskan mann og er ekki á heimleið. „Ég hef ekki komið til Indónesíu síðan ég flutti hingað. Það er alltaf svo mikið að gera, og maður skreppur ekki beint til Indónesíu.“

Jane heldur píanótónleika í Salnum í Kópavogi á sunnudaginn klukkan 16.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×