Fótbolti

Van Gaal: Drykkjarhléið nýttist vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Hollands, var stoltur af sínum mönnum eftir sigurinn á Mexíkó í dag.

Holland tryggði sér sæti í fjórðungsúrslitum HM í Brasilíu með 2-1 sigri eftir að Mexíkó komst 1-0 yfir. Wesley Sneijder jafnaði metin á 88. mínútu og Klaas-Jan Huntelaar tryggði sigurinn með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Leikmenn sýndu að þeir höfðu trú á verkefninu allt til loka,“ sagði van Gaal en leikurinn fór fram við erfiðar aðstæður í Fortaleza. Hitastigið fór mest í 38,8 gráður á meðan leiknum stóð.

Leikurinn var stöðvaður í þrjár mínútur í hvorum hálfleik og leikmönnum gefið tækifæri til að kæla sig niður. „Ég breytti um leikskipulag í drykkjarhlénu. Það var kostur og nýttist vel,“ sagði Van Gaal.

„En aðstæður voru okkur ekki í hag og það ber að hrósa okkar leikmönnum fyrir að hafa verið með ferskari fætur allt til leiksloka.“

„Þeir voru búnir að undirbúa sig vel fyrir leikinn og þessi sigur veitir okkur mikið sjálfstraust fyrir framhaldið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×