Erlent

Kosið um líknardráp á börnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá belgíska þinginu.
Frá belgíska þinginu. Vísir/AFP
Að öllum líkindum verður Belgía fyrsta landið í heiminum sem samþykkir lög um að leyfa líknardráp á börnum. Frumvarpið var sett fram í nóvember í fyrra og kosið verður um það í dag. Læknum verður þá gefið leyfi til þess að binda enda á líf dauðvona barna undir lögaldri svo framarlega sem þau sjálf geti tekið lokaákvörðunina.

„Einungis börn og unglingar sem greinast hafa með banvæna sjúkdóma og eru við dauðans dyr fá að taka þessa lokaákvörðun,“ segir Dr. Gerland Van Berlaer, yfirmaður á gjörgæslu barnadeildar háskólaspítalans í Brussel.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim og fjölmargir mótmælt löggjöfinni. 160 barnalæknar sendu opið bréf til stjórnvalda þar sem þeir létu í ljós mótmæli sín og segja að með nútímatækni og nýjustu lyfjum sé hægt að koma í veg fyrir allan sársauka. Belgar virðast hinsvegar flestir hlynntir löggjöfinni og samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru 75% Belga samþykkir henni.

Einungis tvö lönd, fyrir utan Belgíu, hafa heimilað líknardráp. Líknardráp í Hollandi er leyfilegt frá 12 ára aldri og í Lúxemborg er það leyfilegt frá 18 ára aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×