Íslenski boltinn

Lars Lagerback hrósar Hauki Heiðari

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur Heiðar í leik með KR í sumar.
Haukur Heiðar í leik með KR í sumar. Vísir/Daníel
Lars Lagerback hrósar Hauki Heiðari Haukssyni í hástert, en Haukur Heiðar er við það að ganga í raðir AIK samkvæmt sænsku fótboltavefnum fotbolldirekt.

„Ég held að hann hafi allt til þess að verða góður leikmaður í sænsku úrvalsdeildinni," sagði Lagerback við Fotbolldirekt.se.

„Þetta er tiltölulega ungur leikmaður sem við tökum inn í landsliðið þegar þess þarf. Hann er stór og sterkur varnarmaður og vel líkamlega byggður."

„Hann er aðallega bakvörður, en ég hugsa mér að hann geti einnig nýst sem miðvörður. Hann er líkamlega sterkur og hefur gert vel í íslensku deildinni. Hann er mjög efnilegur."

Næst var spurt landsliðsþjálfarann hvort hann væri meiri varnar- eða sóknarbakvörður.

„Hann er með gott viðhorf og hann er góður bæði varnar- og sóknarlega. Hann leit vel út þegar hann æfði með landsliðinu," og aðspurður hvernig persóna hann væri svaraði Svíinn:

„Hann er eins og allir Íslendingar, virkar eins og hann sé frábær. Hann lítur út fyrir að vera sterkur andlega og hann var ekkert feiminn þegar hann æfði með landsliðinu. Hann hjálpaði sjálfum sér með því," sagði Lagerback sem hrósaði íslensku deildinni að lokum.

„Íslenska deildin hefur vaxið og liðin þar gerðu frábæra hluti í Evrópudeildinni. Deildin hefur orðið betri og betri með hverju árinu, en það eru mjög fáir atvinnumenn þar. Að fara í eitthverja af deildunum á Norðurlöndunum er gott skref, því þar geta menn einbeitt sér algjörlega að fótboltanum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×