Innlent

Íslendingar hljóti að hlusta á óskir NATO um aukin framlög

Anders Fogh Rasmussen og Gunnar Bragi Sveinsson.
Anders Fogh Rasmussen og Gunnar Bragi Sveinsson. Mynd/Arnþór
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir Íslensk stjórnvöld hljóta að hlusta á þær óskir sem nú berist frá Atlantshafsbandalaginu þess efnis að þátttökuríkin auki fjárframlög til bandalagsins. Gunnar Bragi hitti í gær Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO. Þeir ræddu vítt og breitt um þau mál sem efst eru á baugi og lagði framkvæmdastjórinn áherslu á að í ljósi þess að öryggismat í Evrópu væri nú breytt þurfi aðildarríkin nú að auka fjárframlög sín.

„Við ræddum vitanlega þátt og hlutverk Íslands í Atlantshafsbandalaginu og líka leiðtogafundinn sem fyrirhugaður er í Wales og hann bryddaði að sjálfsögðu líka upp á fjármögnun bandalagsins þar sem er þrýst mjög á aðildarríkin að auka fjárveitingar til varnarmála. Það eru mörg ríki að gera það og þetta er eitthvað sem Íslendingar verða bara að skoða“, segir Gunnar Bragi.

„Ég segi nú bara fyrst og fremst að sem þátttökuríki í Atlantshafsbandalaginu þá hljótum við Íslendingar að hlusta á allar slíkar óskir. En allt sem við gerum verður að sjálfsögðu á þeim nótum sem við höfum sinnt hingað til, á borgaralegum vettvangi,“ bætir ráðherrann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×