Innlent

ESB-umsókn verði afturkölluð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir vísir/daníel
Hanna Birna Kristjánsdóttir telur rétt að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þetta kom fram í máli hennar á fundi með Sambandi eldri sjálfstæðismanna. Hanna Birna, sem er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var gestur á fundinum.

Á þingmálaskrá Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, sem finna má á vef stjórnarráðsins, er tillaga til þingsályktunar um að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þar kemur fram að tímasetning framlagningarinnar, ef til kemur, liggi ekki fyrir.

Gunnar Bragi lagði fram slíka tillögu á Alþingi síðasta vetur. Tillagan olli miklu deilum á þinginu og varð til þess að þingfundir drógust langt fram á nótt um nokkurra daga skeið.

Eftir að tillaga Gunnars Braga leit dagsins ljós lögðu Píratar fram ályktun um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um það hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þingmenn Vinstri grænna lögðu einnig fram tillögu um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins.

Hanna Birna hefur áður lýst því yfir að hún teldi rétt að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Það sagði hún meðal annars í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgunni í nóvember 2012, fyrir síðustu alþingiskosningar.

Aðildarviðræður við Evrópusambandið hófust formlega 16. júlí 2009 í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG. Þessir sömu flokkar gerðu hlé á viðræðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×