Menning

Þegar fortíðin hættir að líða

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Hjörtur Marteinsson. „Ljóðmælandi bókarinnar býr sér til þessa persónu og kallar hana afa.“
Hjörtur Marteinsson. „Ljóðmælandi bókarinnar býr sér til þessa persónu og kallar hana afa.“ Vísir/Ernir
Ljóðin fjalla í raun ekki um afa minn, þótt bókin sé tileinkuð honum,“ segir Hjörtur Marteinsson um viðfangsefni ljóðabókarinnar Alzheimer-tilbrigðin sem í gær hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2014. „Þegar afi minn dó hafði hann byrjað ritun æviminninga sinna, sem reyndist honum erfitt þar sem minnið var farið að svíkja hann og það má segja að það hafi orðið kveikjan að þessum prósaljóðum að verða vitni að því hversu þungt honum féll það. En ljóðmælandi bókarinnar býr sér til þessa persónu og kallar hana afa, það er engin bein fyrirmynd að henni.“



Í umsögn dómnefndar um Alzheimer-tilbrigðin segir: „Nálgunin er afar myndræn og í henni birtist eins konar natúralískur súrrealismi þegar sýnt er hvernig lífið getur glatast fólki og það stigið inn í hliðartilveru sína, aðeins til að villast í eigin fortíð. Sjónarhorn bókarinnar liggur í félagsskap aðstandanda sem nær til afa síns inn á milli og verður um leið sjálfur reynslunni ríkari.“ Ljóðin tengjast innbyrðis og segja samfellda sögu og Hjörtur segir þau hafa komið til sín nánast fullsköpuð.



Hjörtur er ekki óvanur því að vinna til verðlauna fyrir verk sín, hann hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir skáldsöguna AM 00 og Ljóðstaf Jóns úr Vör hlaut hann árið 2004. Hann telur sig þó greinilega ekki fullnuma rithöfund því nú hefur hann sest á skólabekk og nemur ritlist við HÍ. „Það nám hefur komið mér þægilega á óvart,“ segir hann. „Ég er búinn að vera að vinna að skáldsögu í mörg ár og er, þér að segja, kominn með heilt bílhlass af blaðsíðum sem ég nýti mér námið til að vinsa úr og skera niður.“



Alzheimer-tilbrigðin er komin út hjá bókaútgáfunni Tunglinu, sem hefur haft þann háttinn á að gefa bækur út í 69 eintökum og farga þeim sem seljast ekki á fullu tungli, en Hjörtur segir hlæjandi að þeir ætli nú að gera undantekningu á þeirri reglu fyrir verðlaunabókina. „Eintökin verða eitthvað fleiri og lesendur ættu ekki að vera í vandræðum með að nálgast bókina.“



Hjörtur, sem er íslenskukennari á unglingastigi við Árbæjarskóla, hefur einnig lagt stund á myndlist og haldið sex einkasýningar hér innanlands, m.a. í Nýlistasafninu gamla við Vatnsstíg og í Listasafni ASÍ. Auk þess hefur hann tekið þátt í tveimur samsýningum með sambýliskonu sinni, Guðbjörgu Lind Jónsdóttur listmálara. Önnur þeirra sýninga stendur nú yfir í Listasafni Ísafjarðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×