Innlent

Tæplega 58% vilja ekki gjaldheimtu við náttúruperlur

Brjánn Jónasson skrifar
Mikil umræða skapaðist um gjaldheimtu við ferðamannastaði þegar landeigendur við Geysi í Haukadal hófu að innheimta gjald af þeim sem sóttu svæðið heim.
Mikil umræða skapaðist um gjaldheimtu við ferðamannastaði þegar landeigendur við Geysi í Haukadal hófu að innheimta gjald af þeim sem sóttu svæðið heim. Fréttablaðið/Pjetur
Mikill meirihluti landsmanna, um 57,8 prósent, eru andvíg því að innheimt sé gjald af þeim sem skoða helstu náttúruperlur landsins, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Um 42,2 prósent vilja innheimta slíkt gjald.

Þetta er mikil breyting frá því spurt var um afstöðu þjóðarinnar til gjaldtöku í október í fyrra. Þá sögðust 69,6 prósent hlynnt gjaldtöku en 30,4 prósent sögðust andvíg.

Í millitíðinni hefur mikil umræða átt sér stað um gjaldtöku. Landeigendur við Geysi hófu innheimtu aðgangseyri þrátt fyrir mikla gagnrýni, en ríkið höfðaði mál til að stöðva gjaldtökuna. Þá hafa landeigendur við Dettifoss og Námaskarð boðað gjaldheimtu og aðrir virðast í startholunum.

Talsverður munur er á afstöðu fólks eftir aldri. Um 47,2 prósent Íslendinga 50 ára og eldri er hlynnt gjaldtöku, en 37,7 prósent fólks á aldrinum 18 til 49 ára.

Hringt var í 1.332 manns þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 14. og 15. apríl. Svarhlutfallið var 60,1 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Finnst þér rétt að innheimta gjald af þeim sem skoða helstu náttúruperlur landsins? Alls tóku 88,6 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×