Erlent

Bandaríkin og Kúba vinna að bættum samskiptum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Raúl Castro, forseti Kúbu, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Raúl Castro, forseti Kúbu, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Fyrstu skrefin hafa verið tekin í auknum og betri samskiptum á milli Bandaríkjanna og Kúbu. Bandarísku fanga sem hefur verið í haldi á Kúbu síðan árið 2009 var í dag sleppt á sama tíma og nýtt samkomulag á milli ríkjanna var kynnt.

Samkomulagið er ávöxtur átján mánaða leynilegra viðræðna sem fóru að stórum hluta fram í Kanada og voru hvattar áfram af páfanum, samkvæmt New York Times. Lokafundurinn í viðræðunum fór fram í Vatíkaninu. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Raúl Castro, forseti Kúbu, sammæltust um það á símafundi að setja til hliðar deilur sínar og vinna að bættu sambandi ríkjanna.

Vox fjallar um málið og greinir frá því að samkomulagið feli meðal annars í sér að diplómatísk tengsl landanna verði aukin í þrepum og að sendiráð verði opnað í Havana. Bandaríkin hafa ekki verið með sendiráð á Kúbu í meira en hálfa öld. Þá munu Bandaríkjamenn sleppa þremur kúbverskum föngum.

Til viðbótar verður líka dregið úr ferða- og viðskiptatakmörkunum sem beinast gegn Kúbu og Bandaríkjamönnum verður heimilt að nota debet og kreditkort á eyjunni. Kúverskum fjölskyldum í Bandaríkjunum verður þá heimilt að senda allt að 2.000 dollara á ári til ættingja á Kúbu.

Kúbverjar skuldbinda sig með samkomulaginu til að sleppa 53 pólitískum föngum. Stjórnvöld munu einnig gefa landsmönnum aukinn aðgang að internetinu og hleypa starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins inn í landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×