Íslenski boltinn

Guðmundur Reynir: Þetta er bara fótbolti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Reynir Gunnarsson vildi ekki mikið tjá sig um atvik sem átti sér stað í leik KR og ÍBV í Pepsi-deildinni um helgina.

Eins og sást á myndbandsupptökum sást Jonathan Glenn gefa Guðmundi Reyni olnbogaskot en atvikið fór framhjá dómara leiksins.

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, hefur heimild til að skjóta málinu til aganefndar en sagði við Vísi í dag að ólíklegt væri að það yrði af því.

„Ég vil helst ekki segja mikið um þetta. Best væri ef hann færi í bann svo að Gary Martin eigi meiri möguleika á að verða markakóngur,“ sagði hann í léttum dúr.

Hann segir reyndar að þeir Glenn hafi ekki tekist í hendur eftir leikinn. „Hann viðurkenndi ekki að hafa gefið mér olnbogaskot. En þetta er eitthvað sem gerðist í hita leiksins. Þetta er bara fótbolti.“

Guðmundur Reynir gaf það út í sumar að hann myndi hætta eftir tímabilið og stendur hann enn við það. „Það er enginn kvíðahnútur kominn þó svo að það séu bara tveir leikir eftir,“ sagði hann.

„Ekki enn sem komið er að minnsta kosti. Kannski gerist eitthvað í maí á næsta ári,“ sagði Guðmundur Reynir Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×