Gary Neville vann átta Englandsmeistaratitla á ferli sínum með Manchester United og hann er einnig sigursæll í nýja starfinu sínu.
Gary Neville var í gær kosinn besti knattspyrnusérfræðingur ársins á verðlaunahátíð Stuðningsmannasamtaka ensku úrvalsdeildarinnar og er þetta annað árið í röð sem hann fær þessi verðlaun.
Gary Neville hefur blómstrað sem knattspyrnusérfræðingur í sjónvarpi og fer hann á kostum í starfi sínu hjá Sky Sports sjónvarpsstöðinni. Þessi flotta frammistaða hans utan vallar fer heldur ekki framhjá mönnum en hann hefur unnið hjá Sky Sports síðan 2011-12 tímabilið.
Neville hefur sterkar og skemmtilegar skoðanir á ensku úrvalsdeildinni og þá hefur hann alltaf fengið mikið hrós yfir að halda hlutleysi og koma alltaf vel undirbúinn til leiks.
Gary Neville lagði skóna á hilluna í febrúar 2011 en þá var hann næstum því búinn að spila með Manchester United í tuttugu ár.
Hér fyrir neðan má sjá myndband frá því þegar Gary Neville fékk verðlaunin í gær en hann komst þó ekki á hátíðina. Neville þakkaði fyrir sig í myndbandi sem var sýnt á hátíðinni.
Enski boltinn