Menning

Draumur um að halda afmæli dugar alveg fullt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Nú er ég bara ein af þeim kerlingum sem stinga höfðinu í sandinn og er ekkert leið fyrir því að vera orðin sextug,“ segir Þórunn oglætur fara vel um sig í hengirúmi í garðinum.
„Nú er ég bara ein af þeim kerlingum sem stinga höfðinu í sandinn og er ekkert leið fyrir því að vera orðin sextug,“ segir Þórunn oglætur fara vel um sig í hengirúmi í garðinum. fréttablaðið/gva
Þegar tekist hefur að telja Þórunni á að vera í viðtali vegna sextugsafmælisins í dag er eftir að ræða myndamálin.

„Æ, það er nú alltaf erfiðast,“ stynur hún. „Það er til hryllilega mikið af ónothæfum myndum af mér úti um allan bæ.

En mér er svosem alveg sama – þó mér sé ekki sama – þú veist hvað maður er settur saman úr mörgum sýslum!“

Í framhaldi af því er hún beðin að segja frá einhverjum „sýslum“ sem hún býr yfir.

„Ég var sko búin að frétta frá Danmörku að það væri voða flott að vera sextug kona,“ byrjar hún.

„Það væri alveg nýtt, enda entust kerlingar orðið svo vel, væru úti um allt á listviðburðum og vissu allt best – nánast óþolandi!

Ég hef tekið eftir að íslenskar konur fela sig oft á sextugsafmælum og fara í ferðalag – nema Hlín Agnars, hún bauð upp á leikhúsviðburð í Tjarnarbíói. Mér fannst það hetjulegt og datt í hug að gera eitthvað slíkt sjálf.

En ég er búin að vera úti í Mexíkó í sumar og fór líka til Texas. Ég var heilt ár við nám í Mexíkó þegar ég var 23 ára og var komin með heimþrá í annan heimshluta.

Svo fékk ég geðveikt samviskubit. Ef maður á pening á maður auðvitað að gefa hann til góðs málefnis en ekki splæsa honum í flugmiða fyrir sjálfan sig. Ein sýslan mín var ekki ánægð með þetta.

Yfirleitt held ég að flestir séu eins og ég, að áður en að stórafmælum kemur hugsi þeir: Hvernig í dauðanum á ég að leysa þetta? Þegar ég varð fimmtug bauð ég gestum í rútu á Þingvöll.

Lilja systir hélt úti „kventett“ þá, blásturshljómsveit með fimm konum, sem byrjaði að spila í Almannagjá þegar ég og gestir mínir gengum þar niður.

Ég var búin að fá lánaðan pípuhatt og setti blómakrans sem mér var gefinná höfuð Hjördísar Hákonardóttur, fyrsta kvensýslumanns landsins.

Við leiddumst niður Almannagjá og ég sagði undrandi túristum að við hefðum verið að gifta okkur og þeir urðu enn meira undrandi því þetta var áður en giftingar samkynhneigðra voru lögleiddar.

Svo píndi ég alla til að ganga gjárnar, áður en við stoppuðum til að taka upp kampavín og heimabakað brauð og ost, það var ekkert sérlega fallegt gagnvart Thor Vilhjálmssyni og Guðrúnu Ásmundsdóttur sem bæði voru eitthvað ófrísk í fótum þá, þannig að úr þessu varð smá samviskubit í einni sýslunni.“

En þarna varð svona náttúruvíma og nú þurfti ég að toppa þetta á sextugsafmælinu.

Var búin að panta Kramhúsið á sunnudaginn og ætlaði að fá fólk til að dansa við mig en svo fór ég að átta mig á að ein vinkonan frá Akureyri og tengdamamma þyrftu að sitja allan tímann og þetta var allt að verða svo flókið að ég hætti við.

En maður lifir alveg 75% í draumi þannig að draumur um að halda afmæli dugar alveg fullt.

Svo nú er ég bara ein af þeim kerlingum sem stinga höfðinu í sandinn og er ekkert leið yfir því að vera orðin sextug heldur vonast til að eiga gleðilega rest.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×